Hrafnarnir eru að skemmta sér yfir árshlutareikningi Reykjavíkurborgar sem opinberaður var fyrr í dag. Áætlanir gerðu ráð fyrir 6 milljarða afgangi af rekstrinum en þess í stað var tapið 6,7 milljarðar. Augljóst er að höfundar þeirra áætlana eru hinir sömu og gerðu kostnaðaráætlun fyrir göngubrúnna yfir Fosvoginn.
Annað sem sætir tíðindum í afkomutilkynningunni er að Félagsbústaðir ramba á barmi gjaldþrots. Fram kemur í skýrslu fjármála- og áhættustýringasviðs:
„Félagsbústaðir hafa endurskoðað fjárhagsáætlun ársins 2023 m.a. í ljósi breyttrar efnahagsþróunar. Endurskoðuð áætlun gerir ekki ráð fyrir að veltufé frá rekstri standi undir afborgunum langtímalána. Í þvi ljósi er mikilvægt að leita leiða til að styrkja rekstrargrundvöll félagsins þannig að tekjur félagsins standi undir rekstrarkostnaði og afborgunum lána til framtíðar.“
Með öðrum orðum þýðir þetta að Félagsbústaðir, sem hafa verið notaðir á undanförnum árum til að fegra afkomu borgarinnar með undarlegum matsbreytingum á fasteignum sem aldrei stendur til að selja, þurfi fjárhagsaðstoð. Það að setja rekstur Félagsbústaða í uppnám er afrek sem jafnast á við þegar einhverjum vitleysingum tókst að setja pulsufabrikku í þrot fyrir nokkrum áratugum.
Hrafnarnir reikna fastlega ráð fyrir að kaupendur verði hinir sömu og er ætlað að kaupa Malbikunarstöðina Höfða og 40% hlut í Ljósleiðaranum.
Rekstur borgarinnar er sem sagt í kalda kolum. Það var vitað en hröfnunum sýnist hann vera enn verri en talið hefur verið til þessa. Það er ekki ástæðulaust að borgin þurfti frá að hverfa frá fyrirhuguðu skuldabréfaútboði á dögunum: viðbrögð markaðarins voru hlátur.
Allt á að seljast
Hjákátlegt er að borgarráð sendi svo frá sér tilkynningu í kjölfar afkomutilkynningar um að til standi að selja Perluna og tvo vatnstanka í Öskjuhlíð. Hrafnarnir reikna fastlega ráð fyrir að kaupendur verði hinir sömu og er ætlað að kaupa Malbikunarstöðina Höfða og 40% hlut í Ljósleiðaranum.
Í ljósi þessa skilja hrafnarnir fullkomlega að borgarfulltrúar þurfi að bregða sér til Kyrrahafsstrandar norðvesturríkja Bandaríkjanna til þess að gleyma stað og stund á kostnað útsvarsgreiðenda. Hvort þeir eigi skilið að fara í slíka ferð er svo allt annað mál.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.