Týr sér að tíu borgarfulltrúar ætla að smella sér í fræðsluferð til Seattle og Portland seinni hluta ágústmánaðar á kostnað útsvarsgreiðenda. Fram kemur í gögnum borgarinnar að tilgangur ferðarinnar sé að fræðast um sjálfbærni, nýsköpun og rannsóknir í borgunum tveimur. En eins og flestum er kunnugt um þá var ein af meginniðurstöðum síðustu sveitarstjórnarkosninga ákall íbúa Reykjavíkur að borgarfulltrúar kynntu sér sjálfbærni stórborga við Kyrrahafið í norðvesturhluta Bandaríkjanna.

Þá kemur einnig fram að borgarfulltrúarnir séu forvitnir um hvernig borgaryfirvöld í Seattle gerðu borgina að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn. Vafalaust verður því ekki lengi að bíða að Grandinn fyllist af fisksölum sem fleygja sín á milli þorskum og löxum ferðamönnum til skemmtunar rétt eins og þeir gera á Pike Place-markaðnum í Seattle.

***

Það er Dagur B. Eggertsson sem leiðir sendinefndina en auk níu borgarfulltrúa eru fjórir embættismenn með í för. Væntanlega hafa þeir það verkefni að skrifa niður allan fróðleikinn.Vitaskuld er þetta ferð undir fölsku flaggi. Borgarfulltrúarnir munu ekki læra neitt gagnlegt í ferðinni sem ekki hefði verið hægt að kynna sér með lestri og rafrænum samskiptum. Hér er bara verið að hafa ofan af borgarfulltrúum á kostnað útsvarsgreiðenda. Matur og drykkur í fallegum borgum við Kyrrahafið hljómar ágætlega í eyrum flestra síðsumars – ekki spillir fyrir ef kostnaðurinn er greiddur af öðrum.

***

Týr furðar sig á að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, taki þátt í þessari vitleysu. Hætt er við að hljómurinn verði holur þegar þau stíga fram næst og gagnrýna óstjórn meirihlutans á fjármálum borgarinnar.Hann furðar sig einnig á að Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi sósíalista, borginni taki þátt í þessu bruðli. Eigi að síður hefði Týr haft á því fullan skilning hefði förinni verið heitið til Milwaukee. Það er jú eina bandaríska borgin sem hefur kosið yfir sig sósíalista sem borgarstjóra og það þrívegis eins og Alice Cooper benti á hérna um árið.

Týr er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 4. ágúst.