Hrafnarnir lásu það í Morgunblaðinu að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírati hefur óskað eftir að greiða ríkinu aftur þá vildarpunkta sem hún hefur fengið fyrir tíð ferðalög sín fyrir hönd þings og þjóðar.
Ljóst er að þetta gæti verið mikill búhnykkur fyrir ríkissjóð enda er Þórhildur meðal ferðaglaðari þingmanna. Þannig hefur þingið greitt tæpar fjórar milljónir króna í vegna flugfargjalda Þórhildar Sunnu frá árinu 2016. Ljóst er að Alþingi geti keypt fullt af flugmiðum fyrir punkta Þórhildar. Samanlagt nemur kostnaður Alþingis vegna erlendra ferðalaga Þórhildar um þrettán milljónum frá árinu 2016.

Eins og fram kemur í viðtali Morgunblaðsins ferðast Þórhildur eingöngu með Icelandair til og frá landinu og kýs oft að ferðast á Saga Class. Hrafnarnir sjá Þórhildi fyrir sér að horfa út um gluggann á fyrsta farrými við flughlaðið á Leifsstöð með döprum augum vegna aðbúnaðar hlaðmanna flugfélagsins Play en það er önnur saga.
Afrekskona á faraldsfæti
Hrafnarnir telja það ágætis afrek að láta ríkið kaupa fyrir sig flugmiða fyrir tæpar fjórar milljónir á nokkrum árum og safna upp ferðakostnaði fyrir þrettán milljónir sem svo er greiddur af ríkinu. Hrafnarnir hafa mikla sannfæringu fyrir að hvert einasta ferðalag Þórhildar hafi verið bráðnauðsynlegt og varðar þjóðarhag.
Þórhildur er einnig mikil afrekskona þegar kemur að söfnun dagpeninga vegna ferðalaga erlendis. Það sem af er ári hefur Þórhildur safnað dagpeningum vegna ferðalaga erlendis að andvirði 1,8 milljón. Þrátt fyrir að árið sé ekki enn liðið er þetta mikil bæting frá því í fyrra en þá safnaði hún einungis 1,5 milljónum í dagpeninga. Þórhildur á samt enn langt í land að bæta metið sitt frá 2019 þegar hún fékk ríflega tvær milljónir í dagpeninga. En hrafnarnir hafa eigi að síður fulla trú á að hún slái það met fyrir áramót.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.