Hrafnarnir hafa fylgst gáttaðir með framgöngu borgarfulltrúa meirihlutans frá því að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til næstu fimm ára var kynnt í gær. Dagur B. Eggertsson lýsti fjárhagsáætluninni sem hálfgerðu listaverki og glæsilegum minnisvarða um hvernig borgarmeirihlutinn hefur leyst fjárhagsvanda borgarinnar – fjárhagsvanda sem þó var aldrei til nema í hugum úrtöluradda.

Fulltrúar meirihlutans eru sem sagt harla ánægðir með sjálfa sig vegna þess að þeim tókst að kokka upp fjárhagsáætlun sem spáir því að hagnaður verði af rekstri A- og B-hlutarins á næsta ári. Sporin hræða í þessum efnum og mættu fjölmiðlamenn og minnihlutinn minna hinn sjálfumglaða meirihluta á þá staðreynd.

Eins og flestum ætti að vera minnisstætt þá gerði fjárhagsáætlunin í fyrra ráð fyrir að afgangur af rekstri A – og B- yrði átta milljarðar á þessu ári. Útgönguspá geri nú ráð fyrir að tapið verði ríflega fjórir milljarðar. Þetta er tólf milljarða sveifla á nokkrum misserum. Þetta bendir til þess að lítið sé að marka fjárhagsáætlanir borgarinnar.

Spárnar sem aldrei rætast

Fjárhagsspáin frá því fyrra hvíldi á þeirri forsendu að Orkuveitan skili hagnaði upp á ríflega 13 milljarða á þessu ári og að Félagsbústaðir leggi til tæpa sex milljarða í púkkið. Ljóst er af nýjustu spám að þetta mun ekki rætast svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Orkuveitan reiknar með að 6 milljarða hagnaður verði af starfseminni í ár og Félagsbústaðir reikna með tæplega 300 milljónum í stað sex milljarða.

Í ljósi þessa er hjákátlegt að fulltrúar borgarmeirihlutans blási í lúðra vegna útgáfu nýrrar fjárhagsáætlunar sem sýnir að reksturinn skili afgangi. Taka skal fram að sú spá hvílir á þjóðhagsspá Hagstofunnar sem er úr sér gengin vegna verðbólguþróunar og þar af leiðandi eru allar líkur á að afkoman verði mun verri vegna þess hversu skuldsett borgin er. Í raun og veru er rannsóknarefni hversu mikið skeikar á milli áætlana og raunverulegrar niðurstöðu í rekstri borgarinnar.

Stjörnuleikur Dóru

Þá er komið að stjörnuleik Dóru Bjartar Guðjónsdóttir borgarfulltrúa Pírata. Hún steig í pontu á fundi borgarráðs í gær og veifaði þessari fjárhagsáætlun sem sönnun þess að borgin ætti ekki við neinn rekstrarvanda að stríða. Í framhaldinu stóð hún í hótunum við þá fjölmiðla sem höfðu vogað sér að fjalla um rekstur borgarinnar.

Það er eins og borgarfulltrúinn geri sér enga grein fyrir því að lánalínur borgarinnar eru þandar til hins ítrasta í bankakerfinu og að Reykjavík hefur þurft frá að hverfa með fyrirhuguð skuldabréfaútboð sökum afarkjara sem henni bjóðast. Það kann að vera að Dóra Björt líti ekki á það sem rekstrarvanda en hún er þá ein þeirrar skoðunar.

Svarið finnst á skuldabréfamarkaðnum

Vilja menn svo leita endanlegs svars við spurningunni um hversu trúverðug fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar þá er það finna á skuldabréfamarkaðnum. Svarið er enn sem komið er að áætlunin sé afar ótrúverðug.

Í þessu samhengi er rétt að minna á þá staðreynd að Reykjavíkurborg hefur mun verra lánstraust en heimili vísitölufjölskyldunnar þegar litið er til kjara á skuldabréfamarkaði.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.