Andlát Elísabetar Bretadrottningar hefur verið fyrirferðarmikið í fjölmiðlum hér á landi sem og annars staðar. Forsíður Morgunblaðsins og Fréttablaðsins voru að sjálfsögðu lagðar undir þessi tíðindi síðastliðinn föstudag. En blöðin tvö fóru ólíkar leiðir í þessum efnum. Morgunblaðið var með hefðbundna stórfréttaforsíðu. Fimm dálka fyrirsögn og ítarlega umfjöllun um andlátið og þá atburðarás sem það ýtti úr vör. Fréttablaðið birti hins vegar flennistóra mynd af hinu föllnu drottningu ásamt stuttum texta sem vísaði á frekari umfjöllun inn í blaðinu sem samanstóð af nokkrum myndum frá ferli drottningarinnar og svo tímalínu um lífshlaup hennar.

Þetta vakti athygli ýmissa úr heimi íslenskra fjölmiðla á samfélagsmiðlum. Einn þeirra velti fyrir sér hvernig ritstjórn Fréttablaðsins myndi bregðast við fráfalli íslensks merkismanns eða konu miðað við þessa forsíðu. Hægt er að taka undir þær vangaveltur. Væntanlega myndi ritstjórn blaðsins sleppa borðanum sem auglýsti nýja Skoda-bifreið neðst á forsíðunni sem innihélt myndina af Elísabetu. En hægt er að hafa samúð með ritstjórn Fréttablaðsins því erfitt var að finna fréttir í blaðinu þann daginn sem hefðu átt erindi á forsíðu. Þannig var sagt frá því að Akureyringar væru pirraðir á þokulúðrum skemmtiferðaskipa, að ofskynjunarsveppir slái á þunglyndi og að verð á ritföngum hafi hækkað að undanförnu.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 15. september 2022.