Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur farið mikinn vegna skráningargjalda Háskóla Íslands og krafist þess að skólinn endurgreiði gjöld sem greidd hafa verið af öllum nemendum skólans aftur til ársins 2014.

Lauslegur útreikningur hrafnanna bendir til þess að ef háskólinn gengi að kröfum Rakelar Önnu Boulter, forseta SHÍ, þyrfti hann að endurgreiða nemendunum alls rúmlega 9 milljarða króna.

Málið byggir á úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, nefndar sem hrafnarnir vissu ekki að væri til fyrr en fréttir bárust af málinu. Stúdentaráðsliðar telja úrskurðinn staðfesta ólögmæti gjaldanna en Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, túlkar niðurstöðuna með öðrum hætti.

Á sama tíma og forseti SHÍ krefst endurgreiðslu á gjöldunum kvartar hún yfir undirfjármögnun háskólans. Erfitt er að sjá hvernig rúmlega 9 milljarða endurgreiðsla myndi hjálpa til við meinta undirfjármögnun.

Stjórnendur háskólans og nemendur þurfa þó ekki að örvænta því hrafnarnir eru með lausn sem getur farið langt með að fjármagna kröfu stúdentaráðsins. Hún felst í því að styrkja rekstur Happdrættis Háskóla Íslands með því opna fleiri spilakassa og stórauka sölu á happdrættismiðum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.