Formenn félaga lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða sendu á dögunum frá sér yfirlýsingu vegna skýrslu Guðmundar Björgvins Helgasonar og félaga í Ríkisendurskoðun um Landspítalann.
Ein af þremur lausnum formannanna við vanda spítalans er einföld – að dæla meira fjármagni í heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisútgjöld eru þegar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og þrátt fyrir að búið sé að stórauka útgjöld til málaflokksins á undanförnum árum virðist fjárausturinn ekki hafa skilað sér í bættri þjónustu eða meiri starfsánægju.
Mun vænlegra til árangurs væri að reyna að hámarka nýtingu þess fjármagns sem sett er inn í kerfið í stað þess að sturta peningum ofan í illa rekið svarthol. Enda hvetur Ríkisendurskoðun Landspítalann og heilbrigðisráðuneytið til að taka stefnumótun og áætlanagerð um heilbrigðistækni fastari tökum.
Hrafnarnir eru mátulega bjartsýnir um að Alma Möller heilbrigðisráðherra taki þessa ábendingu til sín, enda lagði hún ítrekað stein í götu fyrirtækja í heilbrigðistækni á tíma sínum sem Landlæknir.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.