Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær fjallar Óðinn um heilbrigðiskerfið og hversu mikið við verjum til heilbrigðismála í hlutfall af vergri landsframleiðslu, á hvern íbúa og í samanburði við hin Norðurlöndin.

Óðinn fjallar um nokkur ummæli Magnúsar Karls Magnússonar prófessors og fyrrum forseta læknadeildar Háskóla Íslands. Meðal annars þá staðhæfingu Magnúsar Karls að framlög ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafi farið sílækkandi frá aldamótum.

Hér á eftir fer hluti af pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Björn Zoëga, Magnús Karl og töluleg gögn

Magnús Karl Magnússon prófessor í læknisfræði og starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar mætti í byrjun ágúst í Sprengisand til Kristjáns Kristjánssonar. Magnús sagði að útgangspunktur umræðunnar, sem varð í kjölfar orða Björns Zoëga stjórnarformanns Landspítalanum um að fækka þyrfti starfsfólki á Landsspítalanum sem ekki sinni sjúklingum, færi í taugarnar á honum. Hann sagði að umræðan væri þannig að það væri niðurskurður framundan.

Magnús Karl sagði að það vanti töluleg gögn sem sýni þessa útþenslu á Landsspítalanum sem rætt er um og ef gögnin sýndu það, m.a. í hlutfalli við erlend sjúkrahús, væri rétt að skoða það.

Þegar hlustað er á viðtalið í heild þá verður Magnús Karl ekki skilinn á annan veg en þann að hann telji íslenska heilbrigðiskerfið vel rekið en vanfjármagnað.

En mér finnst fólk missa sjónar af þessari stóru mynd, sem hefur verið að þróast, ég held, á síðustu tuttugu árum, frá sirka 2002 eða síðustu aldamótum, er að hlutfall okkar þjóðartekna til heilbrigðismála hefur farið sílækkandi.

Þetta eru pólitískar ákvarðanir, en án þess að almenningur hafi verið sammála því eða áttað sig á því og við erum komin í þessa stöðu núna, að heilbrigðisstarfsfólk er komið upp við vegg og farið að rífast um það hvaða geiri hafi tekið á sig mestan niðurskurð.

Óðinn er algjörlega sammála Magnúsi Karli að nauðsynlegt er að byggja umræðu um rekstur Landspítala, sem og alla annan ríkisrekstur, á tölulegum gögnum.

Magnús Karl kemur þarna fram með staðhæfingu um að hlutfall þjóðartekna til heilbrigðismála hafi farið sílækkandi. Óðinn trúði reyndar ekki sínum eigin eyrum þegar hann hlustaði á orð Magnúsar, svo mikið komu þau á óvart því staðhæfing Magnúsar er þvert á það sem Óðinn hélt.

Magnús Karl talar um þjóðartekjur en hlýtur að eiga við landsframleiðslu - eins og venjan er. Rétt eins og hagstofur og alþjóðlegar stofnanir, líkt og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD), gera.

Aldrei hærra hlutfall frá 1998

Þegar útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála sést að staðhæfing Magnúsar Karls er kolröng. Framlögin eru í dag mun hærri en þau voru um aldamótin.

Árið 2000 voru útgjöld ríkissjóðs 7,46% af landsframleiðslunni, árið 2002 voru þau 7,94% en árið 2021 varði ríkissjóður 8,39% af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Hlutfallið lækkaði vissulega í góðærinu árin fyrir hrun, þegar landsframleiðslan óx mikið, það lækkaði í kjölfar hrunsins en það hefur vaxið viðstöðulaust frá árinu 2015. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra en nú frá árinu 1998.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 18 ágúst 2022.