Hrafnarnir fylgdust spenntir með útboði og skráningu fjarskiptafyrirtækisins NOVA.

Segja má að skráning félagsins í Kauphöllina marki ákveðin vatnaskil á íslenska hlutabréfamarkaðnum, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem skemmtana­stjóri stýrir félagi sem er skráð á markað. En sem kunnugt er titlar Margrét Tryggvadóttir sig þeim starfstitli. Hrafnarnir fagna því einnig að loks sé hress lögaðili skráður á markaðinn. Að vísu tók gengi hlutabréfa NOVA skarpa dýfu eftir að viðskiptin voru hringd inn við hátíðlega athöfn og féllu þau um 10% við lok dags. Áhugavert var að lesa umfjöllun RÚV um skráninguna, en þar kom fram að „litlar breytingar hafa verið á verð bréfanna“ eftir að viðskipti hófust.

Hröfnunum þykir þessi framsetning setja sveiflurnar sem hafa orðið í Kauphöllinni að undanförnu í nýtt samhengi.

Huginn og muninn er skoðanadálkur en þessi birtist í Viðskiptablaðinu.