Undanfarnar tvær vikur hefur breska blaðið The Daily Telegraph birt daglegar fréttir af spillingarmálum breskra þingmanna og ráðherra, en þeir hafa margir hverjir misnotað reglur þingsins um endurgreiðslur á ýmsum kostnaði til hins ýtrasta.
Blaðið komst yfir öll gögn málsins, frá heildarfjárreiðuyfirliti niður í smæstu kvittanir, auk innri bréfaskrifta skrifstofu þingsins um þessi mál. Samhliða þessu hóf blaðið herferð á ritstjórnarsíðum sínum um afsagnir þingforsetans og helstu spillingarpésanna, umbætur í þinginu og tafarlausar þingkosningar.
Telegraph hefur leitt þetta mál, en aðrir fjölmiðlar hafa mátt gera sér að góðu að elta það. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, sala blaðsins hefur aukist um 10%, áskriftarsalan hefur tekið kipp og heimsóknum á vef þess fjölgað mjög.
Afraksturinn má sjá á fleiri sviðum. Dómsmálaráðherrann hefur hrökklast frá, forsætisráðherrann lenti í vandræðum með að útskýra suma reikninga sína og flestir telja þingforsetann lifandi dauðan. Hér ræðir þó ekki aðeins um siðspillingu stöku þingmanna, heldur er heiður sjálfs þingsins undir og stjórnmálalífið allt í uppnámi.
Vel má vera að blaðið felli stjórnina, knýi fram kosningar og verulegar stjórnkerfisbreytingar áður en yfir lýkur. Spillingarmálin í þinginu eru þannig vaxin að einungis dagblað hefði getað gert þeim viðunandi skil. Hvorki tímarit, ljósvaka- né vefmiðlar hefðu getað greint frá þessu víðfeðma og djúpstæða spillingarmáli þannig að vel væri.
Daily Telegraph undirbjó það feykilega vel og reiddi síðan fram með skýrum og skipulegum hætti, dag eftir dag, þannig að málið öðlaðist eigin hrynjandi. Í ritstjórnargreinum var svo kjarninn enn frekar skilinn frá hisminu og hinar siðferðislegu og stjórnskipulegu víddir þess ræddar í þaula. Það hefði ekki heldur verið unnt að gera það nema í dagblaði.
Segið svo að dagblöð séu deyjandi miðlar!
***
Engum dettur í hug að í íslenskum stjórnmálum þrífist viðlíka spilling, en þó drógu fjölmiðlar ekki af sér fyrir kosningarnar á dögunum að ræða fjármál flokkanna, einkum þó Sjálfstæðisflokksins, sem er merkilegt í ljósi þess að viðlíka spurningar höfðu vaknað um fjármál annarra flokka, sérstaklega Samfylkingarinnar.
Þó nú sé tæpur mánuður liðinn frá kosningum bólar ekkert á frekari upplýsingum. Skiljanlegt kann að vera að stjórnmálaflokkarnir séu ekki að keppast við það, en hitt er einkennilegra að fjölmiðlar virðast nánast hafa misst áhuga á málinu. Ætli það eigi líka við lesendur þeirra, hlustendur og áhorfendur?
Málið er þó ekki alveg dautt. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins mátti finna skýringarmynd í líki púsluspils, sem átti að sögn að útskýra fjármál stjórnmálaflokkanna. Hún gerði það raunar ekkert sérlega vel, en höfuðgallinn var sá að þar var ekki að finna neitt nýtt um þessi mál. Ekkert.
***
Aðalfréttin á síðu 2 í helgarblaði Fréttablaðsins var á jafnréttisnótunum og þar var nú ekki verið að skafa af því: „Stefnir í jafnt kynjahlutfall árið 2057“.
Þar skrifaði Brjánn Jónasson um ráðagerðir forystufólks Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráðs Íslands um fjölgun kvenna í forystusveit íslensks atvinnulífs. Allt er það nú gott og blessað og fyrirætlanirnar vafalaust göfugar.
Fréttin var hins ámóta markviss og markmiðin, líkt og fyrsta setningin gaf fyrirheit um: „Fyrsta skrefið í því að auka hlutdeild kvenna í stjórnunarstöðum fyrirtækja er að fjölga konum í stjórnum fyrirtækjanna.“ Einmitt.
Margvísleg tölfræði var rakin í fréttinni, en þar á meðal var nefnt að nú væru um 22% stofnenda fyrirtækja konur, en árið 1990 hefðu konur verið 11% stofnenda fyrirtækja. Síðan sagði: „Haldi þessi hæga þróun áfram á óbreyttum hraða verður kynjahlutfallið ekki jafnt fyrr en árið 2057, samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins.“
Nú er þessi fullyrðing afar hæpin frá tölfræðilegu sjónarmiði: tvær tölur með 19 ára millibili segja ekkert um hversu ör breytingin er, og fyrir vikið er niðurstaða Brjáns um 2057 nánast út í loftið. Látum þó vera hvernig þessi furðulegi útreikningur var gerður.
Hið gagnrýnisverða er að þarna er tekin tölfræði um kynjaskiptingu meðal stofnenda fyrirtækja, eitthvert ártal fundið út frá því og síðan notað í fyrirsögn um að þá náist máske jafnt kynjahlutfall. Í fyrirsögninni, undirfyrirsögn eða inngangi fréttarinnar var ekkert um stofnendur fyrirtækja, enda vafamál að kynjahlutfall þeirra sé einhver vísbending um nokkuð annað en kynjahlutfall stofnenda fyrirtækja! Þarna grípur blaðamaður til vafasamra reiknikúnsta til þess að búa til fyrirsögn, sem er beinlínis til þess fallin að afvegaleiða lesandann.
Það er mikið til af tölfræði um kynjahlutföll í atvinnulífi og vinnumarkaði, þó hún sé engan veginn tæmandi og nokkur brögð að því að menn noti hana til þess að draga of víðtækar eða rangar ályktanir, eins og Helgi Tómasson tölfræðidoktor hefur bent á. Í þessarri frétt var að finna nóg af athyglisverðum upplýsingum, án þess að Brjánn þyrfti að framleiða sínar eigin til þess að nota sem fyrirsagnarpunkt.
***
Helsta fréttaefni íslenskra fjölmiðla í liðinni viku var glæsilegur árangur söngkonunnar Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur í Evróvisjónkeppninni. Vel mátti láta nokkuð með velgengni hennar, enda hafa íslenskir fjölmiðlar verið nokkuð lausir við gleðifregnir undanfarið misseri.
Af þeim fregnum og viðbrögðum öllum má sjálfsagt lesa eitt og annað um brothætta sjálfsmynd þjóðarinnar, en af tengdum fréttum mátti einnig ráða sitt hvað um hversu grunnt er á hinu góða í veigamiklum álitaefnum.
Þannig mátti finna efasemdamenn um Evrópusambandsaðild, sem töldu ómaksins vert að draga fram, að í 3 efstu sætum söngvakeppninnar hefðu einvörðungu verið fulltrúar þjóða utan sambandsins!
Kannski það hafi aðeins verið vegna þess að hinn hvatvísi kynnir útsendingar keppninnar á Íslandi, Sigmar Guðmundsson, gerðist svo þjóðrækinn er leið að uppskerunni að hann lagði Evrópumálin að veði: „Við höfum ekkert í þetta Evrópusamband að gera ef við náum ekki inn á topp tíu það er alveg á hreinu.“
Flestir hafa að líkindum tekið þessari gamansemi Sigmars sem slíkri, að minnsta kosti hafði enginn fréttamaður RÚV fyrir því að fá viðbrögð hjá Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, en við hann hefur verið rætt af minna tilefni undanfarna mánuði. Ekki þó allir, því í bloggheimum mátti finna menn, sem töldu RÚV hafa þarna freklega brotið hlutleysisreglur sínar.
Já, jæja. Það verður stuð þegar menn fara að ræða mögulega aðild af einhverri alvöru.
***
Fregnirnar af því hvernig þjóðir Evrópu hefðu tekið Íslendinga aftur í sátt – a.m.k. þegar sönglistin er annars vegar – voru þó ekki fyrstu jákvæðu fregnirnar í íslenskum miðlum frá liðnu hausti. Samkvæmt Fjölmiðlavaktinni hefur jákvæðum fréttum jafnvel tekið að fjölga á ný, en að mati hennar birtust 67 jákvæðar fréttir í fjölmiðlum vikuna 2.- 8. maí.
Í fréttatilkynningu sagði að jákvæðasta frétt þeirrar viku hefði verið í Fréttablaðinu hinn 7. maí, en þar var rætt við við Stefán Bjarnason sem átti 99 ára afmæli sama dag. Stefán er vel ern og sagði blaðamanni Fréttablaðsins m.a. að hann færi stöku sinnum á skemmtistað fengi sér bjórglas. Litlu verður Vöggur feginn.
***
Ekki voru þó allar fréttir frá Moskvu jafngleðilegar. Þar leysti lögregla upp gleðigöngu argra, en söngvakeppnin nýtur sérstakrar hylli í þeirra hópi. Eftir þessu var tekið hér á landi og hafði sjónvarpsstjarnan Egill Helgason það á orði í bloggi sínum, að þátttakendur í keppninni gætu látið til sín taka með því að standa þegjandi á sviðinu. (Einn lesenda hans taldi þó að sennilegast væru margir sem vildu að þáttakendur í Evrósjón stæðu yfirleitt þegjandi á sviðinu!)
Í Morgunblaðinu var ekki sagt frá þessu, þó það hafi engan veginn slegið slöku við fréttaflutning af flestu því sem tengdist keppninni. Hins vegar mátti í blaðinu á mánudag sjá skemmtilega mynd af fjölda föngulegra kvenna í brúðarskarti fyrir utan Höll alþýðunnar í Rúmeníu.
Undir fyrirsögninni „Brúðarfjör í Búkarest“ var greint frá því að konunum á myndinni hefði ekki leiðst að klæða sig upp til þess að taka þátt í „brúðargöngu“.
Það sem ekki kom fram í myndatextanum er að göngur sem þessar eru skipulagðar af yfirvöldum víða í Austur-Evrópu, þar á meðal í Rússlandi, til þess að halda hefðbundnum fjölskyldugildum á lofti og sem svar við gleðigöngum argra.
Yfirvöld þar eystra hafa grundvallaðar áhyggjur af dvínandi fæðingartíðni og líta ergi miklu hornauga. Þar eru gleðigöngurnar nefndar „Pride Parade“ upp á ensku, en þaðan kemur orðaleikurinn um „Bride Parade“. Það er ekki beint hægt að amast við því að Moggi hafi ekki áttað sig á sig á þessu, en þarna missti hann af tækifæri til þess að setja líflega myndina í fréttalegt samhengi. Þess í stað var þriðjungi af síðu varið í tilefnislausa mynd af sætum stelpum og lesandinn engu nær.