Ríkisútvarpið birti frétt um sjálft sig vikunni. Snerist fréttin um að 36 prósent auglýsenda myndu annað hvort minnka birtingafé sitt eða senda úr landi ef ríkið myndi taka RÚV af auglýsingamarkaði. Ennfremur kom fram í fréttinni að 64 prósent svarenda segðust líta það neikvæðum augum ef taka ætti RÚV af auglýsingamarkaði.

Fréttin fór fremur hljótt, þar sem fáir, ef nokkur annar fjölmiðill, sagði frá þessari könnun, sem gerð var af Háskólanum á Bifröst. Ástæðan er mögulega sú að af 111 æðstráðendum, sem fengu spurningalistann, svaraði aðeins um helmingur eða 56. Það þykja ekki sérlega góðar heimtur þegar um er að ræða jafnstórt mál og þetta. Mál sem snertir fjölda einkarekinna fjölmiðla, sem hafa um árabil þurft að sæta því að keppa á kolröngum forsendum við RÚV á samkeppnismarkaði.

Það eru heldur ekkert mikil tíðindi fólgin í því að hópur auglýsenda vilji hafa aðgang að dreifiveitu, sem byggð hefur verið upp fyrir almannafé, niðurgreidd er með skattfé og allir landsmenn þvingaðir til að vera í áskrift.

Á síðasta ári fékk RÚV 5,1 milljarða forgjöf á aðra fjölmiðla í landinu. Er þessi forgjöf í formi tekna af almannaþjónustu en það er fjárveiting ríkissjóðs, sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi. Þessar tekjur jukust um 430 milljónir á milli áranna 2021 og 2022.

Þessu til viðbótar námu tekjur RÚV af auglýsingum 2,4 milljörðum króna í fyrra, sem var 18% aukning frá árinu 2021. Þrátt fyrir allt þetta var Ríkisútvarpið rekið með 164 milljóna króna tapi í fyrra. Það er afrek.

Á þessu ári greiðir hver einasti Íslendingur 69 ára og yngri 20.200 krónur í útvarpsgjald, svo lengi sem hann hefur 2 milljónir króna í árstekjur. Fréttir og efni ríkisútvarpsins eru því ekki ókeypis í neinum skilningi þessi orðs því útvarpsgjaldið er ekkert annað skylduáskrift. Útvarpsgjaldið var 16.400 krónur árið 2016 en hefur hækkað á hverju ári síðan. Á milli áranna 2022 og 2023 nemur hækkunin ríflega 7 prósentum.

Ríkisútvarpið er eins og iðnaðarryksuga á íslenska auglýsingamarkaðnum, þar sem einkareknu miðlarnir reyna að sjúga upp smámolana sem risinn náði ekki. Í gegnum árin hefur þessi ráðahagur eðlilega haft mikil áhrif á rekstur einkarekinna fjölmiðla og framboðið. Síðasta fórnarlambið var Fréttablaðið.

Til þess að einkaframtakið fái þrifist hefur ítrekað verið kallað eftir þeirri sanngjörnu kröfu að RÚV fari hreinlega af auglýsingarmarkaði enda á 5 milljarða ríkisframlag að vera meira en nóg til að halda úti fjölmiðli.

Á meðan Lilja snýst í hringi reyna eigendur einkarekinna fjölmiðla af veikum mætti að halda þeim á floti.

Þessi umræða hefur verið í gangi lengi. Þegar verið var að semja ný útvarpslög árið 1996 komst starfshópur ráðherra að þeirri niðurstöðu að RÚV ætti alfarið að fara af auglýsingamarkaði. Þá eru ekki nema tæp fimm ár síðan skýrsla nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um rekstrarumhverfi fjölmiðla var birt. Í stuttu máli þá lagði meirihluti nefndarinnar til að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði, og ekki bara það, heldur var lagt til að það færi hið fyrsta af þessum markaði.

"Ég er á þeirri skoðun að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkað og ég mun beita mér fyrir því á þessu kjörtímabili að RÚV verði ekki á auglýsingamarkaði,” sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, á málþingi Blaðamannafélags Íslands í febrúar í fyrra.

Nú, rúmu ári seinna kveður við allt annan tón. Í viðtali á Útvarpi Sögu í síðustu viku sagði hún: „Við teljum að það sé ekki skynsamlegt að taka RÚV af auglýsingamarkaði vegna þess að auglýsingatekjurnar eru mjög líklegar að fara í auknum mæli til Facebook, Google og YouTube.“

Á meðan Lilja snýst í hringi reyna eigendur einkarekinna fjölmiðla af veikum mætti að halda þeim á floti. Stjórnendur Ríkisútvarpsins halla sér aftur á móti aftur enda búa þeir við þann munað að geta treyst á ríflega 5 milljarða króna forgjöf frá skattgreiðendum í formi nauðungaráskriftar. Og með hverju nýju gjaldþroti einkarekins miðils eflist auglýsingaryksugan í Efstaleiti.

Staða Ríkisútvarpsins er ógnvænlega sterk og því fylgja hættur. Ákveðinn heilagleiki hefur hvílt yfir fréttastofu RÚV,  svona nánast eins og hún sé hinn eini sanni boðberi sannleikans en það er auðvitað ekki svo. Það vill enginn viti borinn manneskja að á Íslandi verði rekin ein fréttastofa. Fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði er algjört grundvallaratriði í lýðræðisríki. Besta leiðin til að tryggja hana er að allir sitji við sama borð og það er ekki þannig í dag.