Það er skiljanlegt ef blaðamönnum fallast hendur þegar þeir fá í hendur úrskurð Samkeppniseftirlitsins vegna meints samráðs Eimskips og Samskipa á árunum 2006-2013. Enda er hann af biblíulegri stærðargráðu: yfir þrjú þúsund blaðsíður í fimmtán bindum. Þess má geta að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins var bara níu kaflar.

Vafalaust skýrir það að einhverju leyti að frétta­flutningur hefur að stóru leyti snúist um gífuryrði og hneykslan þeirra sem tala alla jafnan í hástöfum og fylgismanna þeirra úr röðum virkra í athugasemdum. En stóryrðin hafa ekki einskorðast við þennan hóp: Þannig mátti heyra Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, leiða líkur að því að málið væri sönnun þess að íslenskt viðskiptasiðferði væri lélegt.

Þetta eru vissulega kaldar kveðjur framkvæmdastjóra til félagsmanna sinna og annarra sem taka þátt í íslensku viðskiptalífi. Ólafur lét þessi orð falla í Kastljósi á þriðjudag í síðustu viku. Með honum í þættinum var Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Hún bætti um ­betur og gagnrýndi forráðamenn Samskipa fyrir að fallast ekki á málflutning Samkeppniseftirlitsins í einu og öllu og sagði þeim að biðja þjóðina þess í stað afsökunar.

Hér skal ekkert fullyrt um sekt eða sakleysi í málinu. En rétt er að benda á að íslenskar eftirlitsstofnanir hafa áður reitt hátt til höggs að ósekju. Menn þurfa ekki að horfa langt aftur í tímann í þeim efnum. Að sama skapi er málinu ekki lokið með úrskurði Samkeppniseftirlitsins. Forráðamenn Samskipa hafa lýst því yfir að málatilbúnaður SKE sé fjarstæðukenndur og þeir muni reka málið fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum ef ekki vill betur til. Það gera þeir ekki að ástæðulausu.

Fjölmiðlar hafa heldur ekki fjallað um ýmsa aðra áhugaverða þætti málsins og augljósar spurningar sem vakna við lestur á úrskurðinum. Þannig er mjög áhugavert að rekstur Samskipa var lélegur á meðan á meintu samráði stóð yfir. Arðsemi reksturs Samskipa var að meðaltali 0,3% á tímabilinu sem samráðið átti að hafa staðið yfir. Hvað veldur? Hafi samráð átt sér stað varð það að minnsta kosti ekki mjög ábatasamt í tilfelli Samskipa.

Þá vekur sektarupphæðin áleitnar spurningar, en hún er fjórir milljarðar. Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa, var á Sprengisandi á sunnudaginn. Hann sagði þar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um samráð fyrirtækisins við Eimskip byggða á kenningum sem væru úr lausu lofti gripnar. Hann kallar þær „samsæriskenningar“.

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi benti þá Herði á að ásakanir um samsæri væru einkennilegar í ljósi þeirrar staðreyndar að forráðamenn hefðu viðurkennt samráðið og greitt 1,5 milljarð í sátt. Hörður sagði:

„Ég er ekki að ætla mönnum að hafa beinlínis hugsað það þannig, en það sem gerist óhjákvæmilega við þetta er að aðalkeppinautur félagsins er settur í vonda stöðu. Ekki bara út frá sönnun á atvikum, heldur út frá fjárhæðinni. Því með því að samþykkja að greiða einn og hálfan milljarð þá er félagið búið að tryggja það að litli aðilinn á markaðinum þarf þá að lágmarki að borga einn og hálfan milljarð í endanlegri ákvörðun.“

Ljóst má vera að sambærileg sátt og Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið myndi leggjast þungt á rekstur Samskipa. Eigið fé Samskipa er um þrír milljarða og þar af leiðandi myndi sektargreiðsla SKE sennilega ganga á milli bols og höfuðs á rekstrinum að óbreyttu. Fjölmiðlar hafa fjallað lítið um þennan þátt málsins.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild sinni í blaðinu sem kom út þann 13. September.