Það er skammt stórra högga á milli í íslensku samfélagi og varla lengur réttlætanlegt að tala um gúrkutíð í fjölmiðlum yfir hásumarið. Slík tíð kann að ríkja á einstökum ritstjórnum en að sama skapi hefur enginn skortur verið á tíðindum í sumar.

Sem kunnugt er þá braust út eldgos á Reykjanesi í síðustu viku. Vefútgáfa Morgunblaðsins varð fyrst til að færa landsmönnum fréttirnar og Vísir og Fréttablaðið fylgdu svo skömmu síðar í kjölfarið. Athygli vakti að Ríkisútvarpið, sem hefur sérstakt almannavarnahlutverk, var rúmlega fimmtán mínútum seinna á ferðinni að færa landsmönnum tíðindin.

Forsíða Fréttablaðsins daginn eftir að gosið hófst vakti jafnframt athygli. Í forsíðufrétt blaðsins var fullyrt að gosið hefði brotist út aðfaranótt útgáfudags á fimmtudag – sum sé eftir að blaðið fór í prentun. En eins og flestir vita fór að spyrjast út að eldgosið væri hafið upp úr hádegi á miðvikudag.

***

Meira af Fréttablaðinu: Föstudaginn 29. júlí birtist frétt á forsíðu blaðsins um að Atlantshafsbandalagið hefði óskað eftir heimild til þess að fara í mikla uppbyggingu á Langanesi. Fréttin er rituð af Birni Þorlákssyni blaðamanni og er þar fullyrt að utanríkisráðuneytið hafi farið fram á að NATO fengi að reisa mikinn viðlegukant og hafnarmannvirki á Langanesi til að þjónusta skip á vegum bandalagsins í norðurhöfum.

Fram kom í fréttinni að blaðamaður hefði reynt að fá staðfestingu á þessu í utanríkisráðuneytinu en engin svör borist. Það sem reyndist svo áhugavert við þessa „frétt“ er að ekkert reyndist hæft í henni. Utanríkisráðuneytið fann sig knúið til þess að senda frá sér yfirlýsingu síðar um daginn þar sem fullyrðingum blaðsins var alfarið hafnað. Fram kemur í tilkynningu ráðuneytis-
ins:

Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 29. júlí, vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri: Engin áform eða hugmyndir eru uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja á því svæði sem þar er til umfjöllunar. Enn síður á sér stað undirbúningsvinna eins og haldið er fram í fréttinni. Engin áform eru um uppbyggingu varnarmannvirkja í Finnafirði og engar beiðnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa verið lagðar fram af hálfu utanríkisráðuneytisins og staðhæfingar um beiðni Atlantshafsbandalagsins eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Fréttin er því röng.“

Og enn fremur:

Í ljósi þess að blaðamaður heldur því fram að engin svör hafi fengist frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurnum Fréttablaðsins, telur ráðuneytið rétt að taka eftir-farandi fram: Blaðamaður hafði samband við fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins sem er í sumarfríi erlendis og var vísað á staðgengil. Blaðamaður hafði ekki samband við staðgengil eða neinn hjá ráðuneytinu til þess að leita staðfestingar á þeim röngu upplýsingum sem hann byggði skrif sín á. Er þetta miður þar sem einfalt hefði verið að koma á framfæri upplýsingum og svara fyrirspurnum um málið.

Ljóst má vera að blaðamenn og yfirstjórnendur Fréttablaðsins þurfa að velta fyrir sér heimildarmönnum sínum betur og skoða hvaða kröfur fréttir þurfa að uppfylla áður en þær rata á síður blaðsins.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst 2022.