Hjúkrunarfræðingurinn sem var ákærð fyrir að hafa orðið sjúklingi að bana var sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum. Málið hefur verið fyrirferðarmikið í fjölmiðlum frá því að atvikið átti sér stað á geðdeild Landspítalans í ágúst 2021. Flestir fjölmiðlar nafngreindu hjúkrunarfræðinginn í fréttaflutningi sínum af málinu. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir kunni að vera um slíkt eru slíkar nafnbirtingar í tengslum við dómsmál orðnar að venju fremur en undantekningu. En ekki eru allir á eitt sáttir með það.

Þannig var Ragnar Freyr Ingvars­son, stundum ­þekktur sem kokkurinn á Landspítal­anum, kallaður í morgunútvarp Rásar 2 á fimmtudaginn í síðustu viku. Tilefnið var að Ragnar hafði gagnrýnt fjölmiðla harðlega á samfélagsmiðlum fyrir fréttaflutning sinn af málinu. Kjarninn í gagnrýni Ragnars var einfaldlega sá að fjölmiðlar höfðu fjallað um málið og greint frá framvindu þess fyrir dómstólum.

Í framhaldinu reifaði svo Ragnar undarlegar hugmyndir sínar um að fjalla ætti með öðrum hætti um möguleg sakamál sem koma getið upp í heilbrigðis­kerfinu en önnur sakamál. Rök Ragnars fyrir þessu voru að fjarstæðukennt væri að heilbrigðisstarfsfólk hefði einbeittan vilja til að skaða sjúklinga. Hægt er að taka undir að það sé fjarstæðukennt. Samt sem áður er fyllsta ástæða fyrir fjölmiðla að fjalla um atvik sem eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu ef grunur er um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, rétt eins og í öðrum geirum.

Eða telur Ragnar Freyr að fjölmiðlar hafi ekki átt að nafngreina Skúla Tómas Gunnlaugsson, lækni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og á Landspítalanum, og fjalla um málefni hans? Eins og komið hefur fram í fjöl­miðlum hóf lögreglan rannsókn á störfum hans þar eð hann var grunaður um að hafa sett sex sjúklinga í lífslokameðferð að ástæðulausu. Fleiri dæmni er hægt að telja til um réttmætar ástæður fjölmiðla til að fjalla um málefni heil­brigðis­starfsfólks sem hefur verið grunað um saknæmt athæfi.

***

En það er áhugavert að velta fyrir sér nafnbirtingu í tengslum við þetta sorglega mál hjúkrunarfræðingsins og sjúklingsins á geðdeild Landspítalans í tengslum við annað mál sem var í fréttum í síðustu viku. Þá sakfelldi áfrýjunar­dómstóll í Svíþjóð ítalska lækninn Paolo Macchiarini í tæplega þriggja ára fangelsi fyrir alvarleg afglöp í starfi.
Nú má velta fyrir sér hvort kokkinum á Landspítalanum þyki það grafalvarlegt að þessi ítalski heilbrigðisstarfsmaður sé nafngreindur í íslenskum fjölmiðlum? Það breytir ekki því að maðurinn er orðinn heims­frægur að endemum, enda er framferði hans að mati sænskra dómstóla glæpsamlegt.

Sama dag og áfrýjunardómstóllinn sakfelldi Macchiarini efndi ítalski læknirinn til blaðamannafundar. Þar kom ­meðal annars fram að honum þætti ósanngjarnt að af þeim 25 heilbrigðisstarfsmönnum sem komu að plastígræðslum í þrjá sjúklinga væri honum einum gert að bera ábyrgð á öllu því sem fór úrskeiðis.

Sem kunnugt er komu tveir íslenskir læknar – þeir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson – að aðgerð og eftirmeðferð í fyrstu plastbarkaaðgerðinni. Hún var gerð á Andemariam Beyene, sem lést tveimur og hálfu ári eftir aðgerð. Aðgerðin og rannsókn sem Macchiarini birti ásamt fleiri læknum sætti mikilli gagnrýni. Rannsóknarnefnd vegna málsins var skipuð hérlendis og var niðurstaða ­hennar meðal annars að vinnubrögð Tómasar hefðu verið aðfinnsluverð.

Eins og fram kemur í frétt Ríkis­útvarpsins um málið þurfti Karólínska sjúkrahúsið að draga til baka sex greinar um plastbarkaígræðslurnar sem birtust í fjórum þekktum vísindatíma­ritum. Karólínska sagði sjö höfunda ábyrga fyrir vísindalegu misferli, þeirra á meðal Tómas.

Framganga 31 til viðbótar væri aðfinnsluverð, þar á meðal Óskars Einarssonar og fjögurra lækna sem hefðu reynt að sýna stofnuninni fram á að ekki væri allt með felldu í rannsóknunum eftir að hafa tekið þátt í þeim. Það vekur sérstaka athygli að aðeins Ríkisútvarpið hélt til haga þeirri staðreynd að tveir íslenskir læknar væru viðriðnir málið og nafngreindi þá.

Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.