Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í borgarstjórn heldur árásum sínum á fjölmiðla áfram. Í morgun birti hún grein undir nafninu Hnignun og upp­risa fjöl­miðla þar sem hún heldur áfram árásum sínum á Morgunblaðið.

Árásirnar eru sprottnar af því að Dóru sárnar að fjölmiðlar hafi fjallað um þá staðreynd að fjárhagsstaða Reykjavíkur er afar bágborin og borgin svo skuldsett að lánalínur hennar í bankakerfinu eru þandar til hins ítrasta og áhugi skuldabréfamarkaðarins á frekari útgáfu er enginn.

Dóra horfist ekki í augu við þennan veruleika frekar en aðrir fulltrúar meirihlutans. Í greininni segir Dóra:

Sérstakur fréttaflipi um fjárhagsvandræði Reykjavíkurborgar var settur upp, líkt og um stórkostlegar hamfarir sem snertu líf og limi allra væri að ræða. Líklegast með það markmið að skapa þau hughrif að staða borgarinnar væri grafalvarleg. Þetta var þó ekki hægt að rökstyðja með neinum gögnum og þvert á móti, ítrekað hefur komið fram að borgin hefur verið með lægsta skuldahlutfallið undanfarin ár meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og lægstu skuldir á hvern íbúa eða með því lægsta. Þetta segja gögnin.

Skuldahlutfall Árborgar fyrir 2022 sem kveður á um hlutfall skulda af tekjum var 204% en 112% fyrir Reykjavík. Samt hefur Morgunblaðið í umfjöllun sinni ítrekað dregið Reykjavík inn í umfjöllun um fjárhagsvandræði Árborgar eins og þar væri um samskonar aðstæður að ræða

Fjárhagsstaða Reykjavíkur er slæm sama hvað Dóra segir

Þarna kýs Dóra að slá ryki í augu kjósenda. Hún horfir eingöngu til rekstrar A-hlutans en ekki samstæðunnar. Það er villandi, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur A-hlutans rétt svo lafir vegna þess að borgin er að mergsjúga arðgreiðslur úr fyrirtækjum borgarinnar. Fyrirtækjum sem standi ekki undir slíkum greiðslum.

Ágætt dæmi um þetta er að borgin ætlar að taka ríflega 30 milljarða í arð úr rekstri OR á næstu árum á sama tíma og fyrirtækið þarf að ráðast í fjárfestingu fyrir margfalda þá upphæð eftir fjárfestingastopp undanfarinna ára.

Þegar samstæðureikningar stærstu sveitarfélaganna er bornir saman sést hversu erfið rekstrarstaða Reykjavíkur er í raun og veru. Dóra Björt er að gagnrýna fjölmiðla fyrir að fjalla um þessa staðreynd.

Skuldahlutfall og veltufé frá rekstri hefur verið mun verra hjá borginni en í öðrum sveitarfélögum eins og meðfylgjandi myndir frá Sambandi sveitarfélaga sýna. Það er blekking að halda öðru fram.

Skilaboð Dóru Bjartar eru einfaldlega þau að það sé óvönduð blaðamennska og áróður að horfa til samstæðureikninga stærstu sveitarfélaganna þegar kemur að samanburði. Hins vegar sé það fagleg blaðamennska og sérlega vönduð blaðamennska í hennar augum að horfa eingöngu til A-hlutans. Væntanlega er þá það allra faglegasta að horfa til fjármálaáætlana borgarmeirihlutans sem hafa skeikað um marga milljarða frá ári til árs ólíkt annarra sveitarfélaga.

Hugarflótti og staðreyndir

Það er eitt að borgarfulltrúinn horfist ekki í augu við staðreyndir og sæki innblástur til Tony Robbins og Öldu Karenar og reyni að "secreta" fjárhagsvandann í burtu. Það er hans vandamál. En það er öllu verra þegar hann ræðst á fjölmiðla fyrir að taka ekki þátt í slíkum hugarflótta þegar kemur að því að fjalla um alvarlega fjárhágsstöðu Reykjavíkur.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.