Mál Seðlabankans gegn Samherja hf. hefur vakið verðskuldaða athygli í opinberri umræðu. Ekki er ætlunin að fjalla ítarlega um þá sögu alla hér, en eitt atriði málsins hefur vakið sérstaka athygli undirritaðs.

Ef grunnurinn að málinu reynist rangur, og á það er bent strax í upphafi, hvernig má það vera að stjórnvaldið haldi samt sem áður hinum haldlögðu gögnum og rannsaki þau um árabil? Hér kemur að stóru álitaefni í íslenskri réttarframkvæmd að mati undirritaðs, sem er framkvæmd húsleita og réttarúrræði þeirra fyrirtækja sem húsleit sæta, eða öllu heldur skortur á þeim.

Haldlagning gagna

Framkvæmd húsleita hér á landi er verulega frábrugðin t.a.m. þeirri framkvæmd sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðhefur við húsleitir vegna gruns um brot gegn samkeppnisreglum. Sem dæmi má nefna að hér á landi hefur verið farin sú leið að afrita póstþjón viðkomandi fyrirtækis í heild sinni. Leiðir þetta óhjákvæmilega til haldlagningar gagna sem óheimilt er að leggja hald á, s.s. samskipti sem háð eru lögbundnum trúnaði. Skoðun gagnanna fer ekki fram á vettvangi heldur í húsakynnum viðkomandi stjórnvalds.

Þetta er þvert á framkvæmd í mörgum ríkjum þar sem tryggð eru úrræði til að koma í veg fyrir slíkt. Sem dæmi má nefna að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðhefur það verklag að gögn eru skoðuð á staðnum í yfir 90% tilvika og einungis gögn sem þýðingu hafa eru afrituð. Er sérstaklega tryggt að engin samskipti við utanaðkomandi lögmenn séu afrituð. Sé framhaldsskoðun í húsakynnum Framkvæmdastjórnarinnar nauðsynleg er hið sama tryggt.

Erfitt að leita réttar síns

Þeim fyrirtækjum sem sætt hafa húsleit hér á landi hefur gengið afar illa að leita réttar síns, telji þau á sér brotið. Verða þau þó ekki sökuð um að hafa ekki reynt að leita réttar síns, en a.m.k. ferns konar leiðir hafa verið farnar í framkvæmd.

Í fyrsta lagi hafa fyrirtæki kært þá úrskurði héraðsdóms sem heimila húsleitir til Hæstaréttar. Öllum slíkum kærum hefur Hæstiréttur hins vegar vísað frá, á þeim grundvelli að húsleitin sé afstaðin. Frávísanir Hæstaréttar hafa byggt á því að þar sem húsleit hafi þegar farið fram þegar Hæstiréttur kveður upp dóm sinn, hafi fyrirtæki ekki lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurðinn sem heimilaði húsleitina. Þessi leið er því ófær.

Í öðru lagi hafa fyrirtæki krafist þess að haldlagningu gagna verði aflétt. Þannig verði viðkomandi stjórnvaldi gert skylt að skila haldlögðum gögnum, og eyða afritum þeirra. Þessi leið reyndist fær í Hæstaréttarmáli nr. 633/2009. Féllst Hæstiréttur í því máli að haldlagningu tiltekinna 18 tölvupósta yrði aflétt, þar sem Samkeppniseftirlitið hefði ekki fært rök fyrir því í málinu að þeir gætu varðað rannsókn málsins.

Þó leiðin sé þannig fær, eru á henni verulegir vankantar. Annars vegar þarf að tilgreina nákvæmlega öll gögn sem krafist er afléttingar haldlagningar á. Var þannig hafnað kröfu Samherja hf. um afléttingu halds allra gagna með dómi Hæstaréttar í máli nr. 357/2012. Í tilviki tölvupósta sem skipta tugum eða hundruðum þúsunda er slíkt einfaldlega ómögulegt. Hins vegar þarf viðkomandi stjórnvald svo óhjákvæmilega að skoða viðkomandi gögn til að verjast slíkum kröfum, sem og dómurinn. Innihaldi gögnin t.a.m. samskipti við utanaðkomandi lögmenn er trúnaðurinn þar með rofinn.

Í þriðja lagi hafa fyrirtæki krafist að rannsókn máls verði hætt. Var það t.a.m. gert af hálfu Samherja hf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 356/2012. Var þeirri kröfu vísað frá Hæstarétti þar sem það gæti ekki sætt mati dómstóla á rannsóknarstigi hvort um refsiverða og ólögmæta háttsemi væri að ræða. Kom jafnframt fram í dóminum að játa yrði Seðlabankanum „nokkurt svigrúm“ til að fara yfir haldlögð gögn í því skyni að varpa ljósi á ætluð brot, sem skýtur nokkuð skökku við í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um nauðsyn þess að sakarefni sé skýrt afmarkað í upphafi.

Loks í fjórða lagi hafa fyrirtæki byggt á því fyrir dómstólum, eftir endanlega sektarákvörðun viðkomandi stjórnvalds, að ætluð ólögmæt húsleit valdi ógildingu hennar. Var slík krafa t.a.m. gerð í máli Hæstaréttar nr. 419/2015. Þar taldi rétturinn það ekki hafa þýðingu í málinu þar sem stjórnvaldið byggði ekki niðurstöðu sína á þeim gögnum sem aðili þess máls taldi ólöglega haldlögð. Jafnvel þó byggt sé á gögnum sem talið er að aflað hafi verið með ólögmætum hætti, er afleiðingin almennt einungis sú að litið sé framhjá þeim tilteknu gögnum við úrlausn málsins, sbr. Hæstaréttarmál nr. 360/2015.

Að krefjast skaðabóta

Eftir stendur þá möguleiki til að krefjast skaðabóta, en á hann hefur lítið reynt í framkvæmd í tilviki fyrirtækja. Í tilviki einstaklinga sem sætt hafa ólögmætum rannsóknaraðgerðum hafa verið dæmdar miskabætur. Gera má ráð fyrir að á þetta reyni nú í máli Samherja hf. líkt og boðað hefur verið, en rétturinn til að krefjast skaðabóta getur hins vegar vart talist nægjanlegt sem eina raunhæfa réttarúrræðið. Meðal annars sökum þess hve erfitt getur verið í framkvæmd að sýna fram á tjón. Réttarúrræðin verða að tryggja réttindi þeirra fyrirtækja sem rannsókn sæta við upphaf og framkvæmd rannsóknarinnar sjálfrar.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert þær kröfur í sinni dómaframkvæmd að fyrirtæki sem sæta húsleitum verði að hafa raunhæf réttarúrræði til að leita réttar síns, telji þau á sér brotið. Viðkomandi dómstóll verði þá að geta endurskoðað í reynd bæði form og efni, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstólsins í máli Grande Stevens gegn Ítalíu, nr. 18640/10. Að mati undirritaðs bendir sú dómaframkvæmd sem hér hefur verið rakin til þess að a.m.k. verulegur vafi leiki á því að fyrirtæki sem sæti húsleitum hér á landi hafi nægjanleg og raunhæf úrræði til að leita réttar síns meðan á rannsókn stendur, telji þau á sér brotið.

Höfundur er lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti hjá LOGOS lögmannsþjónustu.

Mál Seðlabankans gegn Samherja hf. hefur vakið verðskuldaða athygli í opinberri umræðu. Ekki er ætlunin að fjalla ítarlega um þá sögu alla hér, en eitt atriði málsins hefur vakið sérstaka athygli undirritaðs.

Ef grunnurinn að málinu reynist rangur, og á það er bent strax í upphafi, hvernig má það vera að stjórnvaldið haldi samt sem áður hinum haldlögðu gögnum og rannsaki þau um árabil? Hér kemur að stóru álitaefni í íslenskri réttarframkvæmd að mati undirritaðs, sem er framkvæmd húsleita og réttarúrræði þeirra fyrirtækja sem húsleit sæta, eða öllu heldur skortur á þeim.

Haldlagning gagna

Framkvæmd húsleita hér á landi er verulega frábrugðin t.a.m. þeirri framkvæmd sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðhefur við húsleitir vegna gruns um brot gegn samkeppnisreglum. Sem dæmi má nefna að hér á landi hefur verið farin sú leið að afrita póstþjón viðkomandi fyrirtækis í heild sinni. Leiðir þetta óhjákvæmilega til haldlagningar gagna sem óheimilt er að leggja hald á, s.s. samskipti sem háð eru lögbundnum trúnaði. Skoðun gagnanna fer ekki fram á vettvangi heldur í húsakynnum viðkomandi stjórnvalds.

Þetta er þvert á framkvæmd í mörgum ríkjum þar sem tryggð eru úrræði til að koma í veg fyrir slíkt. Sem dæmi má nefna að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðhefur það verklag að gögn eru skoðuð á staðnum í yfir 90% tilvika og einungis gögn sem þýðingu hafa eru afrituð. Er sérstaklega tryggt að engin samskipti við utanaðkomandi lögmenn séu afrituð. Sé framhaldsskoðun í húsakynnum Framkvæmdastjórnarinnar nauðsynleg er hið sama tryggt.

Erfitt að leita réttar síns

Þeim fyrirtækjum sem sætt hafa húsleit hér á landi hefur gengið afar illa að leita réttar síns, telji þau á sér brotið. Verða þau þó ekki sökuð um að hafa ekki reynt að leita réttar síns, en a.m.k. ferns konar leiðir hafa verið farnar í framkvæmd.

Í fyrsta lagi hafa fyrirtæki kært þá úrskurði héraðsdóms sem heimila húsleitir til Hæstaréttar. Öllum slíkum kærum hefur Hæstiréttur hins vegar vísað frá, á þeim grundvelli að húsleitin sé afstaðin. Frávísanir Hæstaréttar hafa byggt á því að þar sem húsleit hafi þegar farið fram þegar Hæstiréttur kveður upp dóm sinn, hafi fyrirtæki ekki lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurðinn sem heimilaði húsleitina. Þessi leið er því ófær.

Í öðru lagi hafa fyrirtæki krafist þess að haldlagningu gagna verði aflétt. Þannig verði viðkomandi stjórnvaldi gert skylt að skila haldlögðum gögnum, og eyða afritum þeirra. Þessi leið reyndist fær í Hæstaréttarmáli nr. 633/2009. Féllst Hæstiréttur í því máli að haldlagningu tiltekinna 18 tölvupósta yrði aflétt, þar sem Samkeppniseftirlitið hefði ekki fært rök fyrir því í málinu að þeir gætu varðað rannsókn málsins.

Þó leiðin sé þannig fær, eru á henni verulegir vankantar. Annars vegar þarf að tilgreina nákvæmlega öll gögn sem krafist er afléttingar haldlagningar á. Var þannig hafnað kröfu Samherja hf. um afléttingu halds allra gagna með dómi Hæstaréttar í máli nr. 357/2012. Í tilviki tölvupósta sem skipta tugum eða hundruðum þúsunda er slíkt einfaldlega ómögulegt. Hins vegar þarf viðkomandi stjórnvald svo óhjákvæmilega að skoða viðkomandi gögn til að verjast slíkum kröfum, sem og dómurinn. Innihaldi gögnin t.a.m. samskipti við utanaðkomandi lögmenn er trúnaðurinn þar með rofinn.

Í þriðja lagi hafa fyrirtæki krafist að rannsókn máls verði hætt. Var það t.a.m. gert af hálfu Samherja hf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 356/2012. Var þeirri kröfu vísað frá Hæstarétti þar sem það gæti ekki sætt mati dómstóla á rannsóknarstigi hvort um refsiverða og ólögmæta háttsemi væri að ræða. Kom jafnframt fram í dóminum að játa yrði Seðlabankanum „nokkurt svigrúm“ til að fara yfir haldlögð gögn í því skyni að varpa ljósi á ætluð brot, sem skýtur nokkuð skökku við í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um nauðsyn þess að sakarefni sé skýrt afmarkað í upphafi.

Loks í fjórða lagi hafa fyrirtæki byggt á því fyrir dómstólum, eftir endanlega sektarákvörðun viðkomandi stjórnvalds, að ætluð ólögmæt húsleit valdi ógildingu hennar. Var slík krafa t.a.m. gerð í máli Hæstaréttar nr. 419/2015. Þar taldi rétturinn það ekki hafa þýðingu í málinu þar sem stjórnvaldið byggði ekki niðurstöðu sína á þeim gögnum sem aðili þess máls taldi ólöglega haldlögð. Jafnvel þó byggt sé á gögnum sem talið er að aflað hafi verið með ólögmætum hætti, er afleiðingin almennt einungis sú að litið sé framhjá þeim tilteknu gögnum við úrlausn málsins, sbr. Hæstaréttarmál nr. 360/2015.

Að krefjast skaðabóta

Eftir stendur þá möguleiki til að krefjast skaðabóta, en á hann hefur lítið reynt í framkvæmd í tilviki fyrirtækja. Í tilviki einstaklinga sem sætt hafa ólögmætum rannsóknaraðgerðum hafa verið dæmdar miskabætur. Gera má ráð fyrir að á þetta reyni nú í máli Samherja hf. líkt og boðað hefur verið, en rétturinn til að krefjast skaðabóta getur hins vegar vart talist nægjanlegt sem eina raunhæfa réttarúrræðið. Meðal annars sökum þess hve erfitt getur verið í framkvæmd að sýna fram á tjón. Réttarúrræðin verða að tryggja réttindi þeirra fyrirtækja sem rannsókn sæta við upphaf og framkvæmd rannsóknarinnar sjálfrar.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert þær kröfur í sinni dómaframkvæmd að fyrirtæki sem sæta húsleitum verði að hafa raunhæf réttarúrræði til að leita réttar síns, telji þau á sér brotið. Viðkomandi dómstóll verði þá að geta endurskoðað í reynd bæði form og efni, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstólsins í máli Grande Stevens gegn Ítalíu, nr. 18640/10. Að mati undirritaðs bendir sú dómaframkvæmd sem hér hefur verið rakin til þess að a.m.k. verulegur vafi leiki á því að fyrirtæki sem sæti húsleitum hér á landi hafi nægjanleg og raunhæf úrræði til að leita réttar síns meðan á rannsókn stendur, telji þau á sér brotið.

Höfundur er lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti hjá LOGOS lögmannsþjónustu.