Í fyrri grein minni Hvað kemur sjálfbærni sköttum við? fjallaði ég um það hvernig skattar og skattastjórnun eru almennt ekki áberandi þegar kemur að upplýsingagjöf fyrirtækja, hvort sem horft er til fjárhagslegrar eða ófjárhagslegrar upplýsingagjafar.

Jú, í ársreikningum bregður fyrir orðum eins og „tekjuskattsskuldbinding“ eða „ógreiddur virðisaukaskattur“ eða „tekjuskattur til greiðslu“. Mögulega er gerð ítarlega grein fyrir ýmsum skattútreikningum og greiddum tekjuskatti hjá stærri félögum sem gera upp samkvæmt IFRS. En það er ekkert endilega það sem mörgum haghöfum fyrirtækja þætti áhugavert að lesa um skattamálin eða skattastjórnun. Haghafar (e. stakeholder) eru þeir einstaklingar eða hópur sem hefur hagsmuni af ákvörðunum eða starfsemi fyrirtækis. Það eru að sjálfsögðu eigendur og hluthafar en hópurinn er stærri. Viðskiptavinir og neytendur falla þar undir ásamt opinberum aðilum og almenningi. Um þetta eru deildar meiningar en af viðhorfum stærstu fjárfestingarbanka og sjóða heims má þó ráða að þessi skoðun er mjög útbreidd og viðurkennd og við sjáum merki um sömu viðhorf hér á landi, ekki síst hjá erlendum fjárfestum. Fyrirtækin eru ekki eyland og rekstur þeirra er ekki einkamál eigendanna.

Í kjölfar fjármálakrísunnar fyrir 15 árum síðan urðu þær raddir háværari um að framferði fyrirtækjanna hefði bein áhrif á almenning, þau ættu að greiða skatta þar sem verðmætin yrðu til og flóknar fléttur þar sem endanlegur hagnaður þeirra væri „skattlagður“ í skattaparadísum í suðurhöfum. Ríki heims brugðust við með áætlunum um að koma í veg fyrir slíkar æfingar með breyttu regluverki, tvísköttunarsamningum og síðast en ekki síst meiri upplýsingagjöf.  Og það sér ekki fyrir endann á þessu breytta regluverki – nú undir merkjum sjálfbærni og þar leikur upplýsingagjöfin aðalhlutverk.  Það þarf nefnilega ekki að vera neitt óeðlilegt að félag í samstæðu sé með aðsetur á eyju langt í suðri ef fyrir því eru eðlilegar forsendur og upplýst um það í opinberum gögnum.

Með breytingum á löggjöf og regluverki, ekki síst í Evrópu, hefur ýmislegt breyst og það sem þykir lágmarksupplýsingagjöf þar er almennt ekki að finna í ársreikningum eða sjálfbærniskýrslum hérlendis. Þessi lágmarksviðmið verða lögbundin hér á landi innan tíðar með innleiðingu á EU Taxonomy reglugerðinni frá Evrópusambandinu eða frá 1. júní næstkomandi. Þessar lágmarkskröfur eða „minimum safeguards“ fela t.d. í sér að í ársreikningum verður að koma fram hver sé skattastefna fyrirtækisins.

Skattastefna getur innifalið ýmislegt og félög hafa sett sér mjög ítarlega stefnu sem fjallar m.a. um hvernig skattastjórnun er háttað, hvernig innra eftirlit og áhættustýring með tilliti til skattamála fer fram og hvernig stjórn sinnir eftirlitshlutverki sínu á þessu sviði.

Til þess að geta fjallað um skattastefnu fyrirtækisins frá sjónarmiði sjálfbærni þarf stjórn þess og stjórnendur á sviði fjármála og skatta að geta svarað eftirfarandi spurningum:

Hvernig er viðhorf stjórnar félagsins til skatta og hver er stefna félagsins á sviði skattastjórnunar og áhættustýringar á sviði skatta?

Hefur þessi stefna verið sett á blað og hvar er hana að finna?

Hvernig er skattastjórnun háttað, hver innan yfirtækisins ber ábyrgð á henni?

Hvaða skatta er félagið að greiða og skila í ríkissjóð?

Svörin við þessum spurningum eru m.a. efniviðurinn í upplýsingagjöfina um skattamál fyrirtækisins sem eiga að birtast í næsta ársreikningi hjá þeim félögum sem falla undir ákvæði ársreikningalaga um ófjárhagslega upplýsingagjöf. Fyrir stærstu fyrirtækin er enn meiri upplýsingagjöf nauðsynleg, þ.e. þau þurfa að birta opinberlega skattgreiðslur sínar í mismunandi löndum þar sem þau eru með starfsemi.

Það á ekki að vera neitt feimnismál fyrir fyrirtæki að segja hvers konar skattgreiðendur þau vilja vera.  Allir þeir sem hafa hagsmuni af rekstri fyrirtækis vilja vita hvaða afstöðu stjórnendur þess hafa til skatta, skattgreiðslna og vilja sjá að fyrirtækið skili sínu framlagi til samfélagsins í takt við umfang starfseminnar í því landi sem hún á sér stað. Og þessar upplýsingar mun nú þurfa að birta opinberlega.

Höfundur er lögmaður og eigandi hjá KPMG Law á Íslandi.