„Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja”. Þetta segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, sem kynntur var í nóvember 2021.

Í sáttmálanum segir að sátt verði að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnislaust samfélag. Einnig þurfi að horfa til betri orkunýtingar, minnka tap í orkukerfinu og bæta nýtingu í virkjunum, sem fyrir eru.

Í stjórnarsáttmálanum kemur einnig fram að endurskoða eigi lög um verndar- og orkunýtingaráætlun frá grunni ásamt því að setja lög og móta stefnu um nýtingu vindorku. Í stuttu máli er ekkert að frétta af þessari heildarendurskoðun.

Vinna við rammaáætlun er síðan ein sorgarsaga. Þriðji áfangi áætlunarinnar var reyndar samþykktur sumarið 2022 en það tók löggjafarvaldið níu ár að ná samkomulagi um hann. Í raun var niðurstaðan sú að fjölga kostum í biðflokki, sem er kannski ágætt því um leið og virkjanakostir eru komnir í verndarflokk er almennt ekki aftur snúið. Þess ber að geta að samkvæmt lögum á að uppfæra rammaáætlun á fjögurra ára fresti hið minnsta. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa með öðrum orðum ekki verið að vinna sína vinnu þegar kemur að þessum málum. Afleiðingarnar eru þær að Ísland, með alla sínu grænu virkjanakosti, býr í dag við ótryggt raforkuöryggi.

Í mars 2021 skilaði verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar inn skýrslu með tillögu að flokkun virkjunarkosta en sú tillaga hefur ekki hlotið afgreiðslu þingsins. Í apríl þetta sama ár, 2021, var verkefnisstjórn vegna 5. áfanga rammaáætlunar skipuð og faghópar hófu vinnu í byrjun árs 2022. Vinna við 5. áfanga er því yfirstandandi á sama tíma og skýrsla vegna 4. áfanga safnar ryki inni á Alþingi.

Afhverju er verið að rifja þetta upp hér. Jú það er vegna þess að þegar kemur að orkumálum fer ekki saman hljóð og mynd hjá ríkisstjórninni. Það er sett markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 en engin samstaða er um hvernig eigi að ná því markmiði.

Fjallað er um þetta mál í Viðskiptablaðinu í dag. Þar kemur fram að til þess að ná markmiðum um jarðefnaeldsneytislaust Ísland þurfi að ríflega tvöfalda raforkuframleiðsluna. Er þar vísað nýja skýrslu Viðskiptaráðs, þar sem fram kemur að í dag séu framleiddar um 20 teravattstundir af raforku á ári á Íslandi. Til þess að ná fullum orkuskiptum þurfi 16 í viðbót og til þess að standa undir vexti samfélagsins og atvinnulífsins þurfi 8 þar til viðbótar eða samtals 24 teravattstundir.

Það væri ágætt fyrsta skref ef stjórnvöld og ráðafólk í orkumálum myndu koma sér saman um nákvæmlega þetta, þ.e. raunverulega orkuþörf og hvaða leiðir við getum farið til að uppfylla hana en það er ekki einu sinni svo. Nú heyrast meira að segja raddir um að óþarfi sé að virkja meira á Íslandi, sem er auðvitað fullkomlega ábyrgðarlaus málflutningur á meðan ekki er bent á hvaðan orkan eigi að koma.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifaði grein í Viðskiptablaðið í byrjun mánaðarins þar sem hann sagði meðal annars: „Leyfisveitingarferli fyrir nýjar virkjanir er því miður gríðarlega þungt í vöfum og óskilvirkt, stofnanir sem eiga að sinna því virða t.a.m. ekki tímafresti og mikilvægi frekari orkuvinnslu fyrir samfélagið er ekki haft að leiðarljósi. Á sama tíma eru aðrar vestrænar þjóðir á þveröfugri leið, þar sem mikil áhersla er lögð á að einfalda leyfisveitingar fyrir virkjun grænnar orku.”

Ef markmið um jarðefnaeldsneytislaust Íslandi árið 2040 á að nást þarf heldur betur að taka til í kerfinu. Ráðafólk þarf að koma sér saman um raunverulega orkuþörf. Löggjafinn þarf svo að hugsa leyfisveitingaferlið upp á nýtt því núverandi skipulag er þunglamalegt og leyfisveitingar taka alltof langan tíma.

Auk þessa þurfa opinberar stofnanir, sem og aðrir sem koma að leyfisveitingarferlinu, svo ekki sé nú talað um rammaáætluninni sjálfri, að fylgja lögum og virða tímamörk. Það er einfalt að tala fjálglega um umhverfisvæna framtíð Íslands en það er fullkomlega marklaust hjal miðað við stöðuna í dag.