Hrafnarnir telja einsýnt að Samkeppniseftirlitið sé í þann mund að hrinda viðamestu samfélagsrannsókn síðari tíma í framkvæmd.
Tengist þetta fyrirhuguðum kaupum lífeyrissjóðanna á eignum leigufélagsins Heimstaden sem er með um 1600 íbúðir hér á landi í útleigu. Í ljósi umsvifa þessara viðskipta er ljóst að Páll Gunnar Pálsson og hans fólk í Samkeppniseftirlitinu þurfa að ráðast í viðamiklar rannsóknir til þess að hafa forsendur til að samþykkja kaupin. Sérfræðingar eftirlitsins eyddu mánuðum í að bragða á majónesi í öllum birtingarformum svo mánuðum skipti til að geta tekið afstöðu til fyrirhugaðra kaupa KS undir handleiðslu Þórólfs Gíslasonar á Gunnars majónesi á sínum tíma.
Þetta hlýtur að þýða að þeir muni eyða næstu misserum í að búa í eignum Heimstaden til þess að leggja mat á viðskiptin. Hrafnarnir telja reyndar litlar líkur á að af kaupunum verði því vafalaust komast sérfræðingar SKE að þeirri niðurstöðu að timburhús og staðsteypt hús teljist ekki staðkvæmdarvara frekar en BBQ og Vals tómatsósan á sínum tíma.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistil birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. Október 2023.