Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var einu sinni sem oftar í viðtali við fréttastofu RÚV á dögunum að ræða stýrivexti.
Formaðurinn sagði Ásgeir Jónsson og félaga í peningastefnunefnd Seðlabankans undir miklum þrýstingi að hækka vexti og sá þrýstingur komi frá greiningardeildum bankanna. Hann bætti svo um betur og kenndi erlendum ferðamönnum um verðbólguna og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að skattpína ferðaþjónustuna ekki nægilega mikið.
Ragnar Þór hefur undanfarna mánuði týnt til fjölmargt fleira sem hann telur sökudólg verðbólgunnar. Í stuttu máli telur hann verðbólguna flest öllum öðrum en sjálfum sér að kenna.
Hrafnarnir hvetja formann VR aftur á móti til að líta í eigin barm þar sem hann og aðrir verkalýðsforingjar hafa kynt rækilega undir verðbólgubálið með því að knýja í gegn launahækkanir sem ekki var innistæða fyrir í síðustu kjarasamningum.
Huginn og Muninn er inn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.