Það er eitthvað nostalgískt við sérbökuð vínarbrauð. Þegar ég var sendur út í bakarí sem krakki, þá sögðu foreldrar mínir alltaf með sérstakri áherslu og velþóknun, að ég ætti að kaupa sérbökuð vínarbrauð.
Það er eitthvað nostalgískt við sérbökuð vínarbrauð. Þegar ég var sendur út í bakarí sem krakki, þá sögðu foreldrar mínir alltaf með sérstakri áherslu og velþóknun, að ég ætti að kaupa sérbökuð vínarbrauð.
Ég botnaði nú satt best að segja aldrei í hrifningunni á þessu tiltekna bakkelsi. Ef til vill eimdi þarna eftir af danskri hámenningu, enda var alltaf talað um þau væru dönsk að uppruna. Sem þau voru auðvitað alls ekki. Ein kenningin er sú, að á sautjándu öld hafi hinn franski Claudius Gele verið að annast veikan föður sinn og smurt smjöri á deigið til að drýgja það áður en það fór í ofninn. Honum til undrunar kom það svona loftkennt og fínt aftur út úr ofninum.
Hvað danska upprunanum líður, þá er sagt að hann megi rekja til verkfalls bakara í Danmörku, sem varð til þess að austurrískir bakarar fluttust til Danmerkur með sína þekkingu og úr varð „wienerbrød“.
Og hvað er betra en að fá hugmynd að pistli í bakaríinu hjá Steinþóri Jónssyni á Nesinu og eiga pólitískt skraf yfir kaffibolla og sérbökuðu vínarbrauði. Til þess að búa til þennan mjúka og nostalgíska sælkeramat notari hann einmitt smjör, líka egg og fleira sem nýtur „tollaverndar“ íslenskra stjórnvalda.
Með „verndinni“ eru íslensk stjórnvöld að vernda sérstaklega danska bakara. Frosið bakkelsi þaðan er nefnilega flutt til Íslands og þá eru engir tollar á smjörinu, eggjunum eða rjómanum ef út í það er farið. Framtakssamt fólk, sem bakar vínarbrauðin hér á landi og skapar verðmæti og atvinnu fyrir þjóðarbúið, er hinsvegar rukkað um háa tolla og kílógjald af sama hráefni. Íslensk stjórnvöld hljóta að geta komist hjá því að skekkja svona samkeppnisstöðu bakara á sama efnahagssvæði.
Er nokkur ástæða til að vernda danskan uppruna sem aldrei var?
Höfundur er sjálfstætt starfandi.