Leiðarar ársins tóku fyrir stærstu mál ársins oftar en einu sinni eins og venja er og tilefni var til. Hér getur að líta þá fimm sem mest voru lesnir á árinu.

1. Veruleikinn og skipulagsmál

Stefna borgaryfirvalda, og þá sér í lagi núverandi meirihluta, í skipulagsmálum hefur verið nokkuð reglulegt umfjöllunarefni í leiðurum blaðsins á árinu sem og þeim sem á undan komu, enda af nægu að taka.

2. Samfylkingin Deyr

Samfylkingin fór í gegn um mikla umbreytingu á árinu sem er að líða og skipti meðal annars um nafn, merki og formann, auk þess að áherslumálin breyttust. Á vissan hátt má líta á það sem endanlegt skipbrot hins gamla flokks, sem leið undir lok þegar hinn nýi tók við.

3. Blikur á lofti

Staðan í helstu viðskiptalöndum Íslands fer versnandi og það hefur óhjákvæmilega áhrif á gang mála hér. Auk horfa í þeim málum var farið yfir komandi kjaraviðræður og aðra áhættuþætti á næsta leyti.

4. Kaldur vetur framundan

Staðan í orkumálum í evrópu hefur varla farið fram hjá neinum. Eftir mikla samstöðu um aðgerðir gegn Rússlandi í upphafi Úkraínustríðsins hefur á köflum reynt þónokkuð á samstöðu Evrópuþjóða í þeim efnum og fleirum eftir því sem harðnað hefur í ári.

5. Skuggi færist yfir formanninn

Sólveig Anna Jónsdóttir lét hendur standa fram úr ermum þegar hún tók við formennsku Eflingar á ný á fyrri hluta ársins eftir að hafa sagt af sér vegna deilna við starfsmenn stéttarfélagsins en hlotið, nokkuð naumlega, kjör og þar með endurnýjað umboð til starfsins á ný í kosningunni sem fylgdi.