Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á dögunum er eitt ár eftir af skipunartíma Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni og hvort Ásgeir kæri sig um að sitja áfram í stólnum, en samkvæmt lögum er einungis hægt að skipa sama mann í embætti seðlabankastjóra tvisvar sinnum. Enda þykir það almennt ekki góðri lukku að stýra að menn sitji í embætti lengur en tíu ár hér á landi – það er að segja nema menn heiti Páll Gunnar Pálsson og stýri Samkeppniseftirlitinu.
Hrafnarnir vona að Ásgeir sitji áfram og ganga út frá því sem vísu. En þeir eru samt spenntastir fyrir því hverjir verði skipaðir í hæfnisnefndina. Mesta spennan snýst um hvort stjórnvöld endurtaki leikinn frá því árið 2014 og skipi Stefán Eiríksson útvarpsstjóra sem formann hæfnisnefndarinnar. Sem kunnugt er gegndi Stefán þá starfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og uppskáru íslensk stjórnvöld hlátur um heim allan þegar hann var skipaður í hæfnisnefndina. Hinn virti vefmiðill Central Banking valdi meðal annars frétt um skipunina sem helstu furðufrétt þess árs í seðlabankaheiminum.
Huginn og Muninn er einn af skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 13. september.