Aldrei þessu vant fjallaði Ríkisútvarpið um hlutabréfamarkaðinn í kvöldfréttum í gær. Tilefnið var þó ærið enda var gærdagurinn á Aðalmarkaði sá þriðji versti frá hruni og lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 7,50%. Umfjöllunin bar þess merki að Ríkisútvarpið hefur lítinn áhuga á viðskiptum og efnahagsmálum.
Til að gera þessum miklu lækkunum skil fékk ríkismiðillinn greindandann Snorra Jakobsson í settið. Þar dældi fréttaþulurinn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir spurningum á Snorra en ein spurning hennar vakti sérstaka athygli hrafnanna. Þá spurði Jóhanna Vigdís hvort afkoman væri betri „í þessum hefðbundnu fyrirtækjum, ef svo má segja, en hjá nýsköpunarfyrirtækjum eins og Marel“.
Marel var stofnað árið 1983 og fagnar því fertugsafmæli á þessu ári. Félagið hafði um árabil verið stærsta félag kauphallarinnar að markaðsvirði, allt þar til Alvotech hirti toppsætið, og var þegar best lét metið á vel yfir 700 milljarða króna. Það er því vægast sagt ansi langt seilst að setja félagið undir nýsköpunarhattinn ásamt öllum hinum sprotunum. Marel er rótgróið iðnfyrirtæki og er í fararbroddi á heimsvísu á sínu sviði.
Að sama skapi vakti það kátínu hrafnanna að Bergsteinn Sigurðsson og vinir hans í Kastljósi ákváðu að heiðra verðhrun miðaldra nýsköpunarfyrirtækisins með því að tileinka þætti kvöldsins nýsköpun. Í þættinum voru m.a. þrjú íslensk nýsköpunarfyrirtæki heimsótt. Hrafnarnir urðu fyrir sárum vonbrigðum þegar í ljós kom að Árni Oddur Þórðarson, forstjóri flaggskips íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, og félagar í Marel hafi ekki verið meðal þeirra heppnu sem fengu ríkismiðilinn inn á gafl til sín.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.