Ísland er í dag talið eitt af heitustu löndum heims og útlit fyrir metár í ferðamennsku og ferðatengdri þjónustu. Til þess að anna stríðum straumi ferðamanna til landsins poppar hvert hótelið upp á fætur öðru ásamt veitingahúsum og annarri ferðatengdri þjónustu. Hraðinn er mikill og oft á tíðum lítið hugsað til framtíðar og langtímauppbyggingar.
Til að unnt sé að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar og auka enn frekar á straum ferðamanna til landsins verðum við að vanda okkur vel og byggja upp þjónustugæði og viðskiptavinavild í hæsta gæðaflokki. Við höfum vissulega upp á margt að bjóða eins og frábæra náttúru, matargerð á hæsta mælikvarða og iðandi næturlíf, svo fátt eitt sé nefnt, en ef þjónustan stenst ekki væntingar verður um skammgóðan vermi að ræða.
Ytri markaðssetning Íslands sem ferðamannaparadísar hefur verið frábær síðustu misseri en hvað eru íslensk þjónustufyrirtæki að gera í sínum innri markaðs- og gæðamálum?
Markmið innri markaðssetningar er að skapa, viðhalda og bæta samskipti innan fyrirtækja, ásamt því að auka áhuga starfsfólks og skilning þess á mikilvægi góðrar þjónustulundar og viðskiptavinavildar gagnvart bæði innri og ytri viðskiptavinum. Ennfremur er markmið innri markaðssetningar að sjá til þess að starfsfólk hafi nauðsynlega kunnáttu og þekkingu, tæki og tól ásamt stuðningi frá yfirmönnum til þess að starfa á þann hátt sem krafist er eða þörf er á.
Ég hvet öll íslensk fyrirtæki og þá sér í lagi þau sem starfa í ferðamennsku og ferðatengdri þjónustu að staldra aðeins við og leggja áherslu á innri markaðssetningu og þjónustu til jafns við ytri markaðssetningu. Við viljum öll að ferðaþjónustan sem atvinnugrein sé komin til að vera!