Að undanförnu hefur Viðskiptablaðið fjallað um þann mikla vöxt sem hefur verið í mannaráðningum hjá hinu opinbera undanfarinn áratug. Hvar sem fæti er drepið niður kemur í ljós að stöðugildum í stjórnsýslunni hefur fjölgað gríðarlega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara þessa lands.

Þannig hefur stöðugildum í Stjórnarráðinu fjölgað um 157 á sjö árum og starfa nú 637 í ráðuneytum landsins. Starfsmönnum Alþingis hefur fjölgað um 60% frá aldamótum og hefur kostnaður við þinghaldið tvöfaldast á þessum tíma. Þetta einskorðast ekki við ríkisreksturinn. Þannig kemur fram í úttekt í blaði dagsins að stöðugildum hefur fjölgað langt umfram mannfjöldaþróun í stærstu sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í Reykjavík fjölgaði stöðugildum um um ríflega eitt þúsund á árunum 2109-2022 á sama tíma og íbúum fjölgaði um ríflega átta þúsund.

Svo virðist að stærðarhagkvæmni og skilvirkni í krafti stafrænnar tækni séu ókunn hugtök í opinberum rekstri. Verður þetta að teljast með nokkrum ólíkindum þar sem þetta er þvert á alla þróun á almennum vinnumarkaði þar sem færri hendur skila sífellt síauknum verðmætum og fækkun starfsfólks í einum geira leysir úr læðingi sköpunarkraft og nýsköpun í öðrum.

Hafa verður í huga að verkefni stofnana hins opinbera ættu að vera í föstum skorðum og breytast lítið frá ári til árs. Þar af leiðandi er þessi ofvöxtur starfsmannahalds nánast óskiljanlegur.

Og eftir höfðinu dansa limirnir. Eins og fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á dögunum þá hefur stöðugildum hjá ríkinu fjölgað um 2.700 frá árinu 2012. Er það um 19% fjölgun en á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 16,9%. Mesta fjölgunin samkvæmt svari ráðherra var í löggæslu og heilbrigðiskerfinu eða um 42% og 30%. Starfsfólki í menntakerfinu fjölgaði um 14%. Fjölgunin í þessum geirum getur átt skýringar í fólksfjölgun og pólitískum áherslum um að styrkja heilbrigðiskerfið og svo framvegis. Þær segja auðvitað ekkert um hvort þjónustan hafi orðið betri eða hvaða störfum hefur fjölgað. En það breytir ekki þeirri staðreynd að störfum í opinberri stjórnsýslu hefur fjölgað ákaflega mikið og án þess að einhver vitræn umræða hafi farið fram um þá þróun.

Reykjavíkurborg er í miklum fjárhagsvandræðum og fjárhagsstaða annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er jafnframt erfið. Ríkissjóður er rekinn með miklum halla á sama tíma og verðbólga er komin úr böndunum. Ljóst er að vandamálin sem þessu fylgir verða ekki leyst án þess að grípa til niðurskurðar.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að auðvelt er að skera niður í rekstri ríkis og sveitarfélaga án þess að það hafi umtalsverð áhrif á þjónustu við íbúa. Eins og ofangreindar tölur gefa til kynna hefur mikið spik sest á reksturinn í formi tilgangslausra sérfræðistarfa sem auðvelt ætti að hrista af sér. Rekstur hins opinbera á að setja í bráðnauðsynlega megrun til þess að hann standist til framtíðar.