Stjórnendur morgunútvarpsins á RÚV tóku andköf yfir því að flokksráð Vinstri grænna hafi lýst því yfir um helgina að hækka ætti veiðigjöld. Augljóslega hefur slík samþykkt enga þýðingu fyrir stjórnarsáttmálann en morgunhanarnir á Rás 2 töldu hins vegar ályktunina marka djúp spor í stjórnmálasöguna. Til þess að ræða þessi mál af festu og yfirvegun fengu þau þingmennina Bjarkeyju Olsen og Hönnu Katrínu Friðriksson til að ræða málin.

Spjallið vakti athygli hrafnanna ekki síst sökum þess að þáttastjórnandi tók sífellt undir með Hönnu og benti á að hún færi með rétt mál en ekki Bjarkey. Það sem áhugaverðast var er að báðir þingmennirnir voru sammála um að það væri óviðunandi ástand þegar eigendur atvinnufyrirtækja á borð við útgerðir fengju meira úr rekstrinum en ríkissjóður. Hröfnunum þykir þetta forvitnileg afstaða fyrir aðrar atvinnugreinar og nú bara launþega almennt.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 1. september 2022.