Hröfnunum þótti ekki mikið til koma þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynnti aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjárlögum næsta árs. Þeir sjá núna að þeir höfðu rangt fyrir sér. Það að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi ákveðið að koma ekki í veg fyrir hvalveiðar mun leiða til tugmilljarða sparnaðar í ríkisrekstrinum og skipta miklu þegar kemur að þætti ríkisfjármála við að ná niður verðbólgunni.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum dögum munu áframhaldandi hvalveiðar setja starfsemi erlendra kvikmyndafyrirtækja hér á landi í algjört uppnám. Niðurgreiðsla íslenskra stjórnvalda hefur leitt til mikillar fjölgunar slíkra verkefna á undanförnum árum. Þannig hafa stjórnvöld niðurgreitt 360 kvikmyndaverkefni hér á landi um 12 milljarða króna frá árinu 2016.

Skapandi iðnaður og "sértæk drápsýki"

Á þessum tíma hafa hvalveiðar verið leyfðar. Eigi að síður telja sumir sérfróðir að ákvörðun um áframhaldandi veiðar muni verða til þess að erlendir kvikmyndagerðarmenn muni snúa sér annað. Þannig sagði Katrín Oddsdóttir, lögmaður framleiðslufyrirtækisins True North og eini núlifandi Íslendingurinn sem er fær um að tala í hástöfum, að áframhaldandi veiðar þýddu að „ auð­kýfingur með sér­tæka dráp­sýki“ eigi að fá að leggja skapandi iðnað á Ís­landi í rúst.“

Reyndar hafði Ríkissjónvarpið eftir Sigurjóni Sighvatssyni kvikmyndaframleiðanda og reynslubolta í bransanum að hvalveiðar hefðu ekki haft nein áhrif á áhuga útsendara draumafabrikkunnar í Hollywood til að taka upp hér á landi og það kæmi ekki til með að breytast með áframhaldandi veiðum.

En hrafnarnir hafa efasemdir um að Sigurjón geri sér fyllilega grein fyrir hversu miklu hinn móralski kompás ræður í heimi kvikmyndanna. Þeir telja að erlend kvikmyndagerð leggist af á Íslandi frá og með deginum í dag en þeir gráta það ekki. Þetta mun leiða til mikils sparnaðar í ríkisútgjöldum einmitt þegar hans er mest þörf.

Opinn tékki

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins hafa erlend kvikmyndafyrirtæki óútfylltan tékka frá stjórnvöldum þegar kemur að niðurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Þó svo að fjárlög þessu ári geri ráð fyrir 1,7 milljörðum króna endurgreiðslu liggur fyrir að kostnaður ríkisins vegna framleiðslu á True Detective-þáttunum mun nema ríflega þremur milljörðum. Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra tók af öll tvímæli í samtali við Viðskiptablaðið fyrr á árinu og sagði alveg skýrt að endurgreiðslur umfram gildandi heimild verði að fullu fjármagnaðar með fjáraukalögum, bæði í ár og á því næsta.

Samtals hefur ríkið endurgreitt alþjóðlegum kvikmyndamógúlum ríflega 12 milljarða vegna framleiðslukostnaðar hér á landi. Það er því ljóst að ákvörðun Svandísar í gær mun hafa í för með sér umtalsverðan sparnað í ríkisrekstrinum á næstu árum rætist verstu spár talsmanna hvalveiðibanns. Hrafnarnir fagna slíku aðhaldi á þessum verðbólgutímum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.