Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á mánudag. Hallinn á ríkissjóði verður 89 milljarðar króna samkvæmt frumvarpinu, en í kynningu ráðherrans segir að ríkisútgjöldin munu aukast um 79 milljarða. Það er 6,4% aukning milli ára.

Þetta er villandi framsetning hjá ráðherranum. Staðreyndin er sú að ráðherrann hefur frá árinu 2020 ítrekað haldið blaðamannafundi til þess að kynna tímabundnar aðgerðir vegna Covid og ríkissjóður skuldsettur vegna fordæmalausra tíma. Nú er þeim tíma lokið og fráleitt að líta á heildarútgjöldin þá sem einhverja grunnlínu.

Samkvæmt kynningu fjármálaráðherra frá 30. nóvember voru 50 milljarðar í fjárlögum 2022 vegna Covid. Það skal þó tekið fram að Óðinn getur ekki sannreynt þá tölu í fjárlögunum sjálfum og fylgiritum.

En að því gefnu þá er aukning ríkisútgjaldanna á næsta ári ekki 79 milljarðar heldur 129 milljarðar milli ára.

Ef við lítum aftur til ársins 2019, þegar Covid hafði ekki tekið hús á heiminum, þá voru ríkisútgjöldin 867 milljarðar samkvæmt ríkisreikningi og að núvirði 1.017 milljarðar króna. Fjárlögin fyrir næsta ár gera ráð fyrir 1.296 milljarða útgjöldum.

Aukningin er 279 milljarðar eða 27,5%. Sisona og ekkert að sjá hér, segir ráðherrann.

***

Hvað kom fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Frá árinu 2019 hefur ríkisstjórnin tekið lífskjör að láni. Hallareksturinn frá 2019- 2023 verður 571 milljarður króna ef fjárlög þessa árs og næsta ganga eftir. Þessi halli er að minnihluta til vegna Covid. Ef tekin eru bein rekstrarútgjöld og beinar skattalækkanir vegna Covid þá er það aðeins um 40% af hallarekstrinum.

Ekki virðast vera nokkur takmörk fyrir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans, sá sem á að vera varðmaður ríkissjóðs, getur valdið þeim sem er annt um annarra manna peninga miklum vonbrigðum.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd er vinstri stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn er löngu hættur að tala fyrir lágum sköttum og hófsömum ríkisútgjöldum. Flokkurinn náði þeim vafasama heiðri að fara niður fyrir 20% í skoðunarkönnunum í sumar. Er takmarkið að komast enn lægra?

***

Hvar var kynningin um sjálf fjárlögin?

Þegar kynning fjármálaráðherra er skoðuð um fjárlögin sést að hún er ekki um fjárlögin. Hún er almennt um efnahagsástandið. Efnahagshorfurnar, atvinnuleysið, kaupmáttinn, eigið fé í húsnæði, fjölda íbúða til sölu, hagvöxtinn og svona mætti halda áfram.

En í kynningunni er ekkert fjallað um skattatekjurnar, skattahækkanirnar, útgjöldin, útgjaldaaukninguna, hallareksturinn og skuldaaukninguna. Það er ekki einu sinni minnst einu orði á fjárhæð heildartekna, heildarútgjalda og hallans. Það mætti halda að fjármálaráðherrann skammist sín fyrir þessar tölur. Sem hann ætti auðvitað að gera.

Í sumar kynnti ríkisstjórnin breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu, sem endurspeglast m.a. í frumvarpinu. Meðal aðgerða er varanleg lækkun ferðakostnaðar ríkisins, frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024 og lækkun framlaga til stjórnmálaflokka. Sömuleiðis má nefna endurskoðun fjárfestingaráforma, aðhald í ríkisútgjöldum eftir gríðarmikla aukningu undanfarin ár og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi. Engin aðhaldskrafa er hins vegar gerð á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, dómstóla, sjúkratryggingar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Fréttatilkynning með fjárlagafrumvarpi 2023, 12. september 2022

***

Öllu snúið á haus

Fjármálaráðuneytinu tekst að snúa öllu á haus í fréttatilkynningu með frumvarpinu.

Dregið úr verðbólgu með ábyrgum aðgerðum

Í sumar kynnti ríkisstjórnin breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu, sem endurspeglast m.a. í frumvarpinu. Meðal aðgerða er varanleg lækkun ferðakostnaðar ríkisins, frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024 og lækkun framlaga til stjórnmálaflokka. Sömuleiðis má nefna endurskoðun fjárfestingaráforma, aðhald í ríkisútgjöldum eftir gríðarmikla aukningu undanfarin ár og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi. Engin aðhaldskrafa er hins vegar gerð á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, dómstóla, sjúkratryggingar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Fréttatilkynning með fjárlagafrumvarpi 2023, 12. september 2022

Í fyrsta lagi þá er útgjaldaaukning um 129 milljarða króna líkleg, nánast örugg, til að auka þenslu og verðbólgu.

Í öðru lagi þá mun áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald hækka um 7,7% á næsta ári. Þessi hækkun mun auðvitað valda hærra verðlagi en ella, og þar af leiðandi verðbólgu.

***

Tittlingaskítur fjármálaráðuneytis

Í þriðja lagi eru aðgerðirnar sem ríkisstjórnin kynnti í sumar, nánar tiltekið 9. júní, smávægilegar miðað við aukningu ríkisútgjalda samkvæmt frumvarpinu.

Varanleg lækkun ferðakostnaðar ríkisins er 640 milljónir króna en árið 2021 var ferðakostnaðurinn 1.668 milljónir króna. Lækkunin nemur 38,3% sem verður að teljast ágætt. En í ljósi þess að ríkið verður rekið með 89 milljarða halla þá höfum við einfaldlega ekki efni á að senda ríkisstarfsmenn í kokteilboð í útlöndum.

Framlög til stjórnmálaflokka munu lækka úr 728,2 milljónum króna í 691,8 milljónir króna. Þetta eru 36,4 milljónir króna. Framlögin eru 337 milljónum hærri að núvirði, eða 95% hærri en þau voru áður en þessir ríkisstjórnarflokkar tóku höndum saman árið 2017 um að eyða annarra manna fé – í vitleysu.

Það er hreinn og klár tittlingaskítur að telja framlögin til stjórnmálaflokkanna fram og hrein móðgun við skattgreiðendur að setja fréttatilkynningu fram með þessum hætti.

Í fjórða lagi er óskiljanlegt hvers vegna fjármálaráðuneytið leggur dómstóla að jöfnu við sjúkrastofnanir. Kostnaður við dómsýsluna hefur aukist gríðarlega á síðasta áratug. Eftir hrunið var dómurum fjölgað mikið til að bregðast við auknum málafjölda. Sú fjölgun hefur aldrei gengið til baka. Að auki hefur verið bætt við nýju dómstigi. Álagið var of mikið í Hæstarétti fyrir, en nú er álagið ekkert, ef marka má dómasafn Hæstaréttar.

***

Les enginn blöðin í ráðuneytinu?

En það er fleira sem stingur í augu í fréttatilkynningunni.

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað hratt, ekki síst vegna hækkunar orkuverðs, og hætta er á að staðan versni enn meira í Evrópu. Áhrif þessa hafa verið takmörkuð á Íslandi, enda er hlutfall endurnýjanlegrar orku óvíða hærra en hér, sjávarútvegur stendur vel og mikil eftirspurn er eftir innlendri ferðaþjónustu. Erlendir ferðamenn eru nú jafn margir og fyrir faraldurinn. Útlit er fyrir að í ár verði hagvöxtur á Íslandi einn sá mesti meðal aðildarríkja OECD og verðbólga er hér næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða.

Það er rétt hjá fjármálaráðuneytinu að alþjóðlegar efnahagshorfur hafi versnað mikið. Það hefur enginn hugmynd um hvert stefnir. Hugsanlega komumst við hjá kreppu. Hugsanlega kemur kreppa og hún verður mild. En sumir spá því að kreppan sem komi verði móðir allra kreppa.

Hvers vegna? Jú, vegna þess að nær öll vestræn ríki heims hafa í langan tíma tekið lífskjör að láni. Með nákvæmlega sama hætti og fjármálaráðherra leggur til að við gerum í þessu fjárlagafrumvarpi og hefur gert allt frá árinu 2019.

Ef það kemur kreppa þá mun hún ekki láta Íslendinga ósnortna. Fiskverð mun lækka, jafnvel hrynja. Ferðamönnum mun fækka, jafnvel hverfa. Álverð mun lækka, jafnvel hrynja. Og þar af leiðandi mun orkuverð lækka, jafnvel hrynja.

Þessi tilvitnuðu orð í fréttatilkynningunni lýsa stöðunni eins og hún er í dag. En þau lýsa á engan hátt því tímabili sem fjárlögin ná til, næsta árs.

Í fjármálaráðuneytinu þiggja 98 einstaklingar laun frá skattborgurunum, að fjármálaráðherranum undanskildum. Verður þetta ágæta fólk ekki að gera aðeins meiri kröfur til sjálfs síns?

***

Ekki alslæmt

Óðinn en einn þeirra sem reyna að horfa á björtu hliðarnar. Heimurinn gæti nefnilega verið verri og á jú enn menn eins og Sverri. Jafnvel á ömurlegu og sósíalísku fjárlagafrumvarpi eins og þessu.

Ríkisstjórnin viðurkennir nú loksins að Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli er engin fríhöfn heldur er nafngiftin til marks um fremur kvikindislegan húmor á kostnað langförulla. En Óðinn skilur ekki hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir ganga ekki alla leið og afnema alveg álöguafsláttinn í komuversluninni í Keflavík og hætti þessum ríkisrekstri, sem er á könnu fjármálaráðuneytisins.

Það eru auðvitað ekki nokkur rök fyrir því að þeir sem hafa efni á því að ferðast geti keypt áfengi og tóbak með lægri álögum. Og raunar engin rök fyrir því að ríkið sé í smásölurekstri.

***

Hvers vegna?

Ríkisstjórnin hyggst reka ríkissjóð með halla út árið 2027. Í heil fimm ár til viðbótar. Þetta er auðvitað galin ákvörðun og til marks um að erindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum er orðið afar óljóst.

Í haust á að halda landsfund í þeim ágæta flokki. Ef flokkurinn tekst ekki á við þessa tilvistarkreppu sína þá hljóta allir þeir sem ekki trúa á ríkisreksturinn að taka höndum saman og stofna nýjan flokk.

***

Stefnan er einföld

Stefna hins nýja flokks væri einföld og eitthvað á þessa leið.

Hægri flokkurinn er lýðræðisflokkur sem er fylgjandi valddreifingu í þjóðfélaginu. Hann setur traust sitt og trú á hverja manneskju í þeirri vissu, að fái frumkvæði, framkvæmdaþróttur og kapp hvers og eins notið sín, miði samfélaginu öllu skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að fólk fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig fram, sér og sínum til viðurværis, hagsbóta og ánægju. Hægri flokkurinn leggur áherslu á að sjálfstæðisbaráttan getur aldrei tekið enda. Lýðræði og lýðfrelsi er ekki tryggt, vegna þess eins að þingkosningar og sveitarstjórnarkosningar fara fram fjórða hvert ár.

Ef t.d. þessar stofnanir fólksins, þing og sveitarstjórnir, gleyma að vald þeirra kemur frá fólkinu og fara að haga sér eins og opinberar stofnanir hafi sjálfstæðar þarfir, er bæði lýðræði og lýðfrelsinu hætta búin. Frelsi verður aldrei tryggt í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna eru önnur kjörorð flokksins „Báknið burt.”