Undanfarið hefur Óðinn verið orðið var við að forstöðumenn stofnanna hafi komið fram opinberlega og sagt sína skoðun á hinu og þessu. Það er allt saman ágætt. En verkefni stofnananna eru bundin í lög og það er fráleitt að forstöðumennirnir leyfi sér að tala í nafni stofnana sem rúmast ekki innan verkefna stofnana lögum samkvæmt.

* * *

Ríkisútvarpið tók viðtal við nýlega ráðinn orkumálastjóra sem sagði að tryggja þyrfti að raforka færi raunverulega í orkuskiptin.

Í fréttinni sagði Halla Hrund Logadóttir m.a. þetta:

„Eins og staðan er núna er það ekki sjálfgefið. Við erum í einfaldlega, í raun og veru, með kerfi þar sem að hæstbjóðandi orkunnar er sá sem nýtur hennar og það er ekki endilega fiskimjölsverksmiðjan sem hefur farið í rafvæðingu eða gróðurhús á Suðurlandi eða aðilar sem við viljum sjá að eru að nýta grænu orkuna okkar."

„Það skiptir miklu máli að við horfum gagnrýnum augum á lagaumhverfið og pössum upp á að orkan rati í orkuskiptin aftur, svo að markmið stjórnvalda sem eru mjög metnaðarfull geti náðst."

Við erum ekki bara með kerfi þar sem hæstbjóðandi fær orkuna heldur er þetta bundið í lög sem eru sett á Alþingi. Rétt er að minna orkumálastjórann á að það eru einmitt alþingismenn, sem eru kosnir í almennum kosningum á Íslandi, sem taka ákvarðanir um skipan orkumála í landinu. Það er ekki orkumálastjóra að segja Alþingi til um hvort eigi að breyta regluverkinu. Réttast væri að breyta starfsheitinu í forstöðumaður Orkustofnunar, til að fyrirbyggja misskilning þann sem virðist vera hjá þeim sem nú gegnir þessu embætti tímabundið til fimm ára án atbeina kjósenda.

* * *

Samkeppnistofnun ríkisins

Sömu sögu er að segja af forstjóra samkeppnisstofnunarinnar. Sá, annars ágæti, maður virðist halda að hann sé eins konar guð samkeppninnar á Íslandi, án þess þó að hafa starfað í samkeppnisrekstri nokkurn tímann svo vitað sé - að minnsta kosti ekki í aldarfjórðung.

Forstjórinn var fyrst skipaður forstjóri Fjármálaeftirlitsins og hafði það fram að færa að vera lögfræðingur. Á þessum tíma, árið 1999, fór ráðherra Framsóknarflokksins með málefni Fjármálaeftirlitsins í viðskiptaráðuneytinu en svo skemmtilega vill til að forstjórinn er sonur annars framsóknarráðherra í sömu ríkisstjórn. Svona er Ísland lítið land.

* * *

Árið 2019 hafði Viðskiptablaðið samband við forstjórann og ræddi frumvarp að breytingum á samkeppnislögum sem þáverandi iðnaðarráðherra hafði lagt fram á Alþingi.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Páll Gunnar Pálsson:

„Frumvarpsdrögin sem kynnt voru í dag eru mikil vonbrigði þar sem í þeim er lögð til veruleg veiking á samkeppnislögum sem rýra mun kjör almennings."

„Stór fyrirtæki sem eru ósátt við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála geta borið þá undir héraðsdóm, Landsrétt og eftir atvikum Hæstarétt. Verði frumvarpið að lögum mun hins vegar enginn gæslumaður almannahagsmuna geta borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Verður þá skapað kerfi þar sem hagsmunagæsla fyrirtækja nýtur að þessu leyti forgangs og yfirburða gagnvart hagsmunum neytenda og smærri fyrirtækja."

Þarna gagnrýnir forstjóri samkeppnisstofnunarinnar ráðherrann sem situr í skjóli kjörins Alþingis smávægilega breytingu á samkeppnislögum. Hann gleymir því hins vegar algjörlega að það er almenningur sem kýs Alþingi og alþingismenn eru gæslumenn almannahagsmuna. Ef almenningur telur þá ekki sinna þeirri skyldu sinni þá gefst tækifæri til að skipta út alþingismönnum á fjögurra ára fresti. Ólíkt forstjóra samkeppnisstofnunarinnar sem hefur setið á sautjánda ár í sínum stól.

* * *

Sprúttsala ríkisins

Alvarlegast er þó þegar ríkisstofnanir fara út fyrir verksvið sitt og jafnvel inn á verksvið annarra stofnana.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins höfðaði á dögunum mál gegn tveimur vefverslunum og forsvarsmönnum þeirra þar sem stofnunin taldi að vefverslanirnar bryti gegn áfengislögunum og einkarétti sínum til sölu á áfengi.

Forsvarsmaður Sante Wines, félagi skráðu í Frakklandi, og Sante ehf. krafðist frávísunar. Ein sjö frávísunarkrafnanna var sú að ÁTVR hefði ekkert eftirlitshlutverk samkvæmt lögunum um stofnunina.

Í greinargerð félaganna tveggja, sem kennd eru við orðið skál upp á franska tungu, sagði um þetta:

Stefnandi sé ríkisstofnun sem heyri undir stjórn fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 86/2011, sem æðsti yfirmaður stofnunarinnar og hafi almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart stefnanda. Starfsemi stefnanda séu sett tiltekin mörk í 4. gr. laganna en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli stefnandi sinna smásölu áfengis og heildsölu tóbaks undir stjórn ráðherra.

Síðan er farið yfir verkefni ríkisáfengisverslunarinnar og endað á eftirfarandi orðum:

Hvergi í þeim lögum eða reglum er varðar málaflokkinn sé kveðið á um að stefnandi [ÁTVR] skuli hafa eftirlit með sölu annarra á áfengi, heldur þvert á móti gert ráð fyrir að slíkt vald sé í höndum ráðherra sbr. 3. gr. laga nr. 86/2011.

Héraðsdómur tekur undir þetta. Í dómnum segir:

Þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um hlutverk og aðkomu annarra að leyfisveitingu og eftirliti með sölu á áfengi hefur stefnandi með almennum hætti freistað þess að rökstyðja að það skipti hann máli að lögum að fá dóm um sakarefni málsins. Stefnandi hefur þó ekki getað sýnt fram á það á hvaða lagagrundvelli hann telur sig hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en vísar almennt til hlutverks síns og markmiðsákvæða laga sem byggist á lýðheilsusjónarmiðum og sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð.

Það er auðvitað ákveðinn brandari að ríkisverslun sem selur eingöngu áfengi og tóbak skuli bera fyrir sig lýðheilsusjónarmið og samfélagslega ábyrgð. Svona ekki síst þegar ríkisverslunin hefur stórfjölgað útsölustöðum, lengt opnunartíma og sýnileika þeirra vara sem hún selur á undanförnum áratugum. Auk þess að minna þá sem hugsanlega eiga erfitt með að neita sér um þessar vöru reglulega með auglýsingum um opnunartíma.

Að lokum vill Óðinn minnast á mikilvægt atriði sem fjallað er um í niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms:

Er því ekki unnt að líta svo á að stefnandi, sem ríkisstofnun, hafi af því fjárhagslega hagsmuni að viðhalda einkarétti á sölu áfengis í smásölu enda er það löggjafans að ákveða fyrirkomulag á sölu áfengis í smásölu í landinu.

Þarna kjarnar hinn ágæti héraðsdómari hlutverk stofnana annars vegar og hlutverk löggjafans hins vegar. Þess má geta að dómarinn féllst að lokum á allar frávísunarkröfurnar, sem er fáheyrt.

* * *

Fjármálaráðherra hlýtur nú að huga að því í ljósi þess að hann er æðsti yfirmaður Áfengis- tóbaksverslunarinnar hvort ekki sé ástæða til þess að skipta um forstjóra í ríkisversluninni. Í ljósi þess að hann fór út fyrir verksvið stofnunarinnar og höfði mál gegn almennum borgara í landinu og olli ríkissjóði verulegum kostnaði og stofnuninni álitshnekki.

Kannski að ráðherrann biðji ráðuneytisstjórann leyfis?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .