Miðflokkurinn nýtur nú meðbyrs í skoðanakönnunum og eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins og Bergþór Ólason þingflokksformaður farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar fyrir komandi alþingiskosningar.
Miðflokkurinn nýtur nú meðbyrs í skoðanakönnunum og eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins og Bergþór Ólason þingflokksformaður farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar fyrir komandi alþingiskosningar.
Flestir eru sammála um að gengi flokksins muni ráðast að miklu leyti af því hvernig tekst til að raða á framboðslista flokksins. Meðal þeirra sem hafa verið nefndir í þessu samhengi er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari en segja má að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ráði miklu um hvort af framboði hans verði.
Þá hafa hrafnarnir heyrt nafn Arnar Þórs Stefánssonar lögmanns og meðeiganda lögmannsstofunnar Lex nefnt. Arnar hefur verið farsæll í lögmannsstörfum sínum en auk þess er hann landsdómari í knattspyrnu og dæmir leiki í efstu deildum. Knattspyrnudómarinn Arnar er einmitt þekktur fyrir að beita „róttækri skynsemishyggju“ í dómgæslu – þeirri sömu og Sigmundur Davíð boðar á vettvangi stjórnmálanna.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. september 2024.