Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um stöðu efnahagsmála á Íslandi sem kynnt var í gær er að finna gagnlega og áhugaverða umfjöllun um innflytjendamál. Eins og fram kemur í umfjölluninni hefur innflytjendum fjölgað hratt hér á landi undanfarna áratugi og hafa þeir leikið lykilhlutverk í þeim efnahagslega framgangi sem hér hefur átt sér stað.

Lagt er til í skýrslu OECD að stjórnvöld styðji enn frekar við aðlögun innflytjenda meðal annars með því að styrkja íslenskukennslu í þeirra hópi og enn fremur að jafna stöðu þeirra á vinnumarkaði. Í því samhengi er sérstaklega nefnt að innflytjendur eru oft á tíðum hámenntaðir en í samfélaginu eru tálmanir fyrir því að þeir fái framgang í viðeigandi sérfræðistörfum.

Viðskiptablaðið tekur undir þessi sjónarmið. Það ætti ekki að koma neinum á óvart enda hefur hér á landi ríkt breið pólitísk sátt um að taka innflytjendum fagnandi hendi á vinnumarkaði og almennur skilningur er á því hversu mikið þeir hafa auðgað samfélagið gegnum tíðina.

Rétt eins og breið pólitísk sátt ríkir um mikilvægi innflytjenda hér á landi er þorri almennings því hlynntur að tekið sé á móti pólitískum flóttamönnum og þeim sem leita að alþjóðlegri vernd. Sú sátt er þvert á pólitískar línur í hinu stóra samhengi hlutanna.

En eðli málsins samkvæmt liggja einhver mörk hvað íslenska ríkið hefur fram til málanna að leggja í þessum málum. Hvað hefðbundna innflytjendur sem koma hér til lands til að sækja sér vinnu eða nám eru mörkin býsna skýr og hvíla á lögmálum auðs og eklu. Þeir sem freista gæfunnar fjarri fósturjörð sækja ekki til landa þar sem enga atvinnu er að fá og þeim allar bjargir bannaðar.

Málið er flóknara í tilfelli seinna hópsins – þeirra sem þurfa að flýja heimaland sitt vegna styrjalda og ofsókna. Þar þurfa íslensk stjórnvöld að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar eftir því sem tök eru. Ekki verður annað sagt en að stjórnvöld hafi staðið sig í þeim efnum á undanförnum árum. Þannig kemur fram í skýrslu OECD að Íslendingar tóku við mun fleiri flóttamönnum en aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar að meðaltali. Sé miðað við flóttamenn á hverja þúsund íbúa tóku aðeins Slóvenía og Austurríki við fleiri flóttamönnum árið 2021. Flóttamenn með alþjóðlega vernd voru 35% af öllum innflytjendum sem komu til landsins í fyrra. Eins og fram hefur komið var stærstur hluti þeirra frá Úkraínu og Venesúela.

Haft hefur verið eftir Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að útlit sé fyrir að pólitískir flóttamenn verði um sex þúsund á þessu ári eða þrefalt fleiri en fyrir tveimur árum. Líklegt er að kostnaður vegna málaflokksins verði tuttugu milljarðar af skattfé borgara þessa lands.

Öllum má vera ljóst að málefni pólitískra flóttamanna hafa verið í ólestri um langa hríð. Tilraunir á Alþingi til þess að gera úrbætur á móttöku og meðferð pólitískra flóttamanna hafa flestar runnið út í sandinn. Ljóst er að gera þarf úrvinnslu málefna pólitískra flótta skilvirkari og gæta þó samræmis við aðrar skuldbindingar. Að sama skapi þarf vitræn umræða um kostnað vegna þessa málaflokks að fá að fara fram.