Sumarið 2014 gafst Íslendingum í fyrsta sinn kostur á að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán. Gátu þá einstaklingar varið 500.000 krónum og hjón 750.000 krónum árlega af skattfrjálsri séreign sinni til greiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Með þessu geta til dæmis fjölskyldur fjárfest í húsnæði og tekið verðtryggð lán og nýtt sér greiðslur úr séreignarsparnaði þannig að þróun höfuðstól lánsins líkist meira óverðtryggðu láni.
Sumarið 2014 gafst Íslendingum í fyrsta sinn kostur á að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán. Gátu þá einstaklingar varið 500.000 krónum og hjón 750.000 krónum árlega af skattfrjálsri séreign sinni til greiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Með þessu geta til dæmis fjölskyldur fjárfest í húsnæði og tekið verðtryggð lán og nýtt sér greiðslur úr séreignarsparnaði þannig að þróun höfuðstól lánsins líkist meira óverðtryggðu láni.
Þremur árum síðar gafst fyrstu kaupendum fasteigna svo kostur á að nýta séreign sína sem útborgun á íbúð, skattfrjálst. Þetta gerir mörgum vonandi það kleift að komast af leigumarkaði og eignast sitt eigið húsnæði. Síðari kosturinn er þó með þeim furðulegu takmörkunum að séreignin takmarkast við séreignarsparnað síðustu tíu ára.
Þessir kostir eru mér hugleiknir þar sem að ég, eftir því sem ég best veit, fór fyrstur manna að skrifa um þá í fjölmiðlum, haustið 2009 í skugga eftirkasta hrunsins, og síðan reglulega í framhaldi af því fram að árinu 2014. Í fyrsta pistli mínum sem birtist í Fréttablaðinu skrifaði ég: Hvati til sparnaðar eykst einnig því með þessu er tryggt að þeir sem sýnt hafa fyrirhyggju í sparnaði og kjósa að minnka húsnæðisskuldir sínar fái að njóta þess í dag þegar að þörfin er mest.
Í dag, um það bil tíu árum seinna, hefur hið merkilega gerst að einstakir blaðamenn Heimildarinnar og Viðskiptablaðsins hafa verið sammála um að leggja eigi þennan kost af. Hafa þeir fært ágæt, þó afar ólík, rök fyrir sínu máli þó svo að ég sé ósammála niðurstöðum beggja póla. Ein röksemdin er sú að það sé almennt hinnir efnuðu sem nýta sér þennan sparnað, og því möguleika á skattfrjálsum greiðslum. Að mínu mati er skautað þar hressilega framhjá því hversu mikið þetta fyrirkomulag getur aðstoðað fyrstu kaupendur í að komast af leigumarkaði, sem að stórum hluta til samanstendur af fátækum einstaklingum og einstæðum foreldrum sem eiga erfitt með að leggja pening til hliðar til að safna fyrir útborgun fyrir eigið húsnæði.
Vita allir af þessu?
Margir aðilar á fjármálamarkaði hafa fjallað opinberlega um að fólk eigi að setja pening í séreignarsparnað, ekki einungis vegna möguleika til að lækka greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar skattfrjálst að ákveðnu marki, heldur líka af því að atvinnurekendur greiða almennt mótframlag sem nemur 2% á móti 2-4% framlagi launþegans. Margir fjármálaráðgjafar hafa nefnt það við mig hversu ótrúlega margir nýta sér ekki þetta augljósa hagstæða sparnarðarform.
Magnea Arna Sigurðardóttir framkvæmdi síðastliðið vor rannsókn í tengslum við útskriftarritgerð hennar í Háskóla Íslands varðandi þekkingu almennings á sparnaðarleiðum fjármálastofnanna. Almennt var þekking almennings ágæt. Ein áberandi undantekning var þó á því. Við greiningu á könnuninni sást að hópurinn með lægsta menntunarstigið, grunnskólamenntun, hafði langminnstu þekkinguna á sparnaðarleiðum. Rúmlega þriðjungur úrtaksins í þeim flokki vissi ekki af viðbótarframlagi launþegans og svipað hlutfall vissi ekki að hægt væri að nýta séreignina til að greiða inná húsnæðislán. Því má álykta að þessi hópur nýti sér síður þennan augljósa sparnaðarkost.
Lausn
Að mínu mati er einföld leið til að breyta þessu. Vitna ég í dæmi sem Johnson og Goldstein sýndu varðandi líffæragjöf. Báru þeir saman hversu margir voru tilbúnir að taka þátt í slíku á milli landa. Í dæmi þeirra kom fram að hjá sumum Evrópuþjóðum voru hér um bil allir tilbúnir til að veita líffæragjöf en í öðrum var hlutfallið afar lágt. Menning virtist skipta litlu máli og því til stuðnings kom fram að nánast 100% Austurríkismanna og 86% Svía voru skráðir líffæragjafar en einungis 12% Þjóðverja og 4% Dana. Meginmunurinn fólst, í stuttu máli, í því að hjá þjóðunum með þetta ofurháa hlutfall þá þurfti fólk að haka í box ef það vildi ekki vera líffæragjafi. Það hakaði varla nokkur manneskja í boxið. Hjá þjóðunum með lágt hlutfall þurfti fólk að haka í box ef það vildi vera líffæragjafi. Aftur, fáir hökuðu í boxið.
Í dag þurfa einstaklingar á Íslandi að haka sérstaklega í box á launasamningum til þess að taka þátt í séreignarsparnaði. Ég þekki til einstaklinga sem hafa auk þess þurft að hafa sérstaklega samband við launadeildina til að ganga frá samningi. Þetta á við um bæði fyrirtæki og stórar opinberrar stofnanir. Í ofanálag þurfa þeir einnig að hafa samband við fjármálastofnun til þess að ganga frá samningi. Það er kannski ekki skrýtið að þeir sem litla þekkingu hafa á kosti séreignarsparnaðar nenni slíkri leikfimi, og hið sama á væntanlega við um jafnvel fleiri sem veigri sig við umstang á þessum nótum. Eðlilegt væri að það þyrfti að haka við í box sérstaklega ef fólk vildi ekki nýta sér séreignarsparnað en annars færi það sjálfkrafa í séreignarsparnað.
Þó svo að fræðsla skipti máli þá getur þessi litla breyting skipt enn meiri sköpum. Fram kom í grein Johnson og Goldstein að hollensk stjórnvöld (þar sem fólk þurfti að merkja í box til að verða líffæragjafi) vörðu pening í áróðursherferð og sendu bréf til 80% íbúa þess til að auka hlutfall lífffæragjafar. Þó var hlutfallið þar einungis 28%.
Hér á Íslandi ætti hlutfall þeirra sem nýta sér séreignarsparnað að vera nálægt 100%. Ríkið ætti að halda áfram sinni stefnu að hvetja til sparnaðar og veita þennan sparnaðarmöguleika.
Höfundur er dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.