Bjarni Benediktsson tók sér í gær stutt leyfi frá því að sannfæra sjálfstæðismenn og aðra að vinstri stjórnin, sem hann fer nú fyrir, eigi enga sök á verðbólgunni.

Nú í hádeginu hafði honum aðeins tekist að sannfæra einn mann, Konráð Guðjónsson hagfræðing ríkisstjórnarinnar, en Óðinn fjallaði m.a. um greinarskrif ríkishagfræðingsins í Viðskiptablaðinu í morgun.

Í síðustu viku bar Óðinn saman stöðu Sjálfstæðisflokksins og Íhaldsflokksins breska, sem galt afhroð í þingkosningum sem fóru fram 4. júlí.

Þrýst á sveitarstjórnarmenn

Tímann í gær notaði Bjarni til að sannfæra sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu að endurskoðaður Samgöngusáttmáli væri þjóðþrifamál og hann skildu menn samþykkja. Meðal annars á fundi í Valhöll.

Óskiljanleg með öllu er sú leynd sem hvílir yfir endurskoðuðum sáttmála. Klukkan eitt í dag þegar sveitarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og forsætisráðherrann, innviðaráðherrann og fjármálaráðherrann skrifa undir sáttmálann hafa hvorki alþingismenn né sveitarstjórnarmenn fengið tækifæri til að kynna sér forsendur hans og gögn.

Íslensk málnefnd kom saman í seint gærkvöldi og felldi niður úr íslenskri tungu orðasambandið að fara með eitthvað eins og mannsmorð og tók í staðinn upp að fara með eitthvað eins og samgöngusáttmála.

Næstum þreföldun

Samgöngusáttmálinn átti að kosta 120 milljarða króna þegar ritað var undir hann í september 2019. Hinn nýi sáttmáli á að kosta 311 milljarða króna. Er ekki rétt að staldra aðeins við og fara betur yfir málið? Þetta eru nú einu sinni 311 milljarðar.

Auðvitað var 120 milljarða talan á sandi byggð. Sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu, en þeir eru nú bara um 100, tíndu saman tölur héðan og þaðan. Frá Vegagerð og sveitarfélögum. Þessar tölur eru sumar hundgamlar og voru ekki uppreiknaðar.

Á fundi í Valhöll í gær þóttist Bjarni Benediktsson vera óskaplega sár úti í sérfræðingana vegna þess þvæluplaggs sem hann bar á borð árið 2019.

En bíddu nú aðeins við Bjarni Benediktsson. Er þetta ekki heldur ónákvæm frásögn ?

Óðinn hefur fengið lýsingar á því hvernig þessi samsuða gagna átti sér stað í fjármálaráðuneytinu undir stjórn Bjarna Benediktssonar. Óðinn telur rétt að gefa fyrrum fjármálaráðherranum tækifæri til að útskýra hvernig pylsugerðin fór fram.

Verða 310 milljarðar 1.085 milljörðum?

Eitt mál þessarar ríkisstjórnar hefur fengið litla athygli er byggingarkostnaður Landspítalans.

Byggingarkostnaðurinn hefur að minnsta kosti 3,5 faldast frá árinu 2017.

  • Árið 2017 hljóðaði kostnaðaráætlun spítalans upp á 62,8 milljarða.
  • Árið 2021 hljóðaði kostnaðaráætlun spítalans upp á 79,1 milljarða.
  • Árið 2022 hljóðaði kostnaðaráætlun spítalans upp á 90 milljarða.
  • Árið 2023 hljóðaði kostnaðaráætlun spítalans upp á 210 milljarða.

Bjarni Benediktsson var spurður af Ríkisútvarpinu í lok apríl 2023 hver skýringin væri á þessu.

„Þegar yfir lýkur erum við að horfa á heildarfjárfestingu yfir 200 milljarða sem er allt önnur tala en við höfum verið að tala um til þessa, enda erum við að ná utan um miklu stærra verkefni.“

Óðinn telur vera orðið tímabært að fjármálaráðherrann fyrrverandi útskýri á íslensku hvað í ósköpunum gerðist þarna. Ríkisframkvæmdir fara alla jafna langt fram úr upphaflegum áætlunum. En líklega er spítalinn met.

Ef við hækkum samgöngusáttmálann líkt og spítalaframkvæmdina yrði kostnaðurinn 1.085 milljarðar. Er útilokað að spítalametið verði slegið?

Eru sjálfstæðismenn ekki lengur ábyrgir?

Ein ástæða þess að Sjálfstæðisflokknum hefur farnast vel í kosningum er sú að kjósendur hafa talið flokkinn ábyrgan í ríkisfjármálum.

Forystumenn vinstri flokkanna hafa alla tíð vitað að þeir kunna ekkert með peninga að fara, hvorki sína né annarra.

Nú er Óðni sagt að allir bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu séu orðnir klappstýrur 310 milljarða samgöngusáttmálans. Það kemur mjög á óvart því þeir hafa flestir náð ágætum tökum á fjárhag sveitarfélaga sinna.

En ætli að þeir átti sig á því að ef þetta fer allt til fjandans hverjum verði um kennt? Þá verður nefnilega dregin upp mynd frá undirskriftinni þar sem sjálfstæðismenn eru í miklum meirihluta.

Stefnulaus, prinsipplaus og vonlaus

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hrunið vegna þess að kjósendum flokksins finnist flokkurinn ekki hafa eytt nægilega miklum peningum eða ráðist í nógu margar framkvæmdir.

Fylgið hefur hrunið vegna þess að kjósendum hans finnst flokkurinn vera eins og lauf í vindi. Stefnulaus, prinsipplaus og vonlaus. Til viðbótar því, og þrátt fyrir allan fjárausturinn, eru helstu málaflokkar í ólestri. Ólesturinn er líklega einna mestur í lestri barna.

Auðvitað þarf vegabætur á höfuðborgarsvæðinu og guð veit að það má efla almenningssamgöngur. Og það mun kosta peninga.

En kjósendur Sjálfstæðisflokksins skilja að 310 milljarðar, sem verða ekki undir 600 milljörðum, munu koma úr þeirra vösum, hvort sem það verður í formi skatta eða vegagjalda. Eða vösum barna þeirra eða barnabarna ef tekin verða lán fyrir framkvæmdinni, sem líklegt er.

Óðinn telur að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi í Valhöll í gærkvöldi, óaðvitandi, markað stefnuna að 10% fylgi í næstu þingkosningum.

Óðinn er fastur skoðanapistill í Viðskiptablaðinu. Þessi pistill birtist aðeins á vef blaðsins.