Margt bar til tíðinda á hluthafafundi Íslandsbanka síðastliðinn föstudag. En hrafnarnir telja stærstu tíðindi fundarins ekki síst vera þau að lífeyrissjóðirnir sniðgengu Ásgeir Brynjar Torfason frambjóðanda Ríkisútvarpsins til setu í stjórn Íslandsbanka. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá var Festa eini lífeyrissjóðurinn sem hafði kjark og þor til að greiða atkvæði með Ásgeiri Brynjari.

Einnig vakti það athygli hversu dræma kosningu Linda Jónsdóttir stjórnarformaður bankans fékk í kjörinu. Aftur á móti fékk Helga Hlín Hákonardóttir glimrandi kosningu. Helga Hlín var hvött til framboðs af lífeyrissjóðnum Gildi og væntanlega telja þeir sem kusu hana til stjórnarsetu í flugfélaginu Wow þegar það fór í þrot og það að hafa sinnt starfi regluvarðar Glitnis, forvera Íslandsbanka, í mitt í útrás íslenska fjármálakerfisins vera gott veganesti fyrir stjórnarsetu í Íslandsbanka.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 4. ágúst 2023.