Lára G. Sigurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsufræðum skrifaði í síðustu viku grein á visir.is.

Lára G. Sigurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsufræðum skrifaði í síðustu viku grein á visir.is.

Þar ritar hún um sölu á áfengi og málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Fyrr í greininni rekur Lára þau atriði sem hún telur skipta öllu um hvernig við háttum áfengissölu á Íslandi.

Hún segir sig enn eina ferðina knúna til að „að benda á mikilvægustu atriðin í tengslum við áfengisforvarnir, og vonast til að fylla á þekkingarbrunn þeirra sem hafa völdin til að stuðla að heilbrigðu samfélagi.“

Hún endar grein sína á þessum orðum:

Allir sérfræðingar sem vinna að áfengisforvörnum eru sammála um að ríkiseinokun sé 100% skynsemi, erlendir sem innlendir.

***

Óðinn fjallar hér um sum þessara atriða og sérstaklega fyrstu tvö. Eru þessi atriði feitletruð í umfjöllun Óðins.

1. A) Áfengisneysla í samfélaginu kostar skattgreiðendur yfir 100 milljarða á ári.

Lára heldur því fram að kostnaður skattgreiðenda af áfengi sé yfir 100 milljarðar króna á ári. Lára vísar í grein sinni í tengil á BS ritgerð Stellu Einarsdóttur í hagfræði frá júní 2022 þar sem segir að„niðurstöður kostnaðarmatsins sýna að samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu á Íslandi nam 100.216,7 milljónum króna árið 2021.“

Það er tvennt ólíkt, kostnaður skattgreiðenda og samfélagslegur kostnaður. Því er staðhæfing Láru ekki ónákvæm heldur efnislega röng.

Háskólaritgerðir eru oft þannig úr garði gerðar að þó höfundar reyni eftir fremsta megni að leita að bestu upplýsingum og heimildum þá eru þær oft af skornum skammti. Ritgerð Stellu Einarsdóttur einmitt þessu marki brennd. Hún neyðist í mörgum tilfellum til að draga ályktanir af mjög ófullkomnum gögnum. Hún vísar til dæmis ítrekað í meistaraverkefni Ara Matthíassonar, leikara og fyrrum Þjóðleikhússtjóra, í heilsuhagfræði.

***

Sú fjárhæð sem Stella og Lára halda fram sem sannleik er í engum takti við niðurstöður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í skýrslunni Áhrif áfengis á þjóðarhag frá september 2018.

Þar áætlar stofnunin að áfengisneyslu kosti samfélagið 22 milljarða króna. Í niðurstöðunum segir:

Alls kostar áfengi landsmenn um eða yfir 22 milljarða króna á ári, eða um 0,9% af landsframleiðslu. Þar af kostar varan sjálf, án sérskatta, um 60%, en afleiðingar neyslunnar fyrir neytendur og aðra nema 40% af kostnaðinum.

Þar er talinn með kostnaður ríkisins af heilbrigðiskerfi, örorku og rekstri meðferðarheimila. Metið er eignatjón og tjón og heilsu og lífi neytenda og einnig innkaupsverð áfengis. Hagfræðistofnun hefur þann eðlilega fyrir að kostnaðurinn gæti verið vantalinn.

1. B) Hingað til hefur hagnaður ÁTVR mætt þessum kostnaði að hluta til, en samhliða aukinni ólöglegri netsölu áfengis sem viðgengst hér á landi hafa arðgreiðslur ÁTVR lækkað um 400 milljónir. Hvar ætla stjórnvöld að finna pening til að standa straum af heilbrigðiskostnaði, sem fellur mikið til á heilsugæslu og spítala, ásamt öðrum útgjöldum vegna áfengisneyslu? Nú þegar fæst ekki fjármagn til að halda meðferðarstöðinni Vík opinni á sumrin. Endursöluaðilar áfengis munu ekki gefa hagnað sinn til ríkisins. Hér er það samfélagið sem tapar.

Tekjur ríkisins af áfengisgjaldi árið 2022 námu 23,8 milljörðum króna. Virðisaukaskattur sem leggst aðeins á áfengisgjaldið nam 2,6 milljörðum króna. Samtals eru þetta 26,4 milljarðar króna.

Þá er ótaldar þær tekjur sem ríkissjóður hafði af virðisaukaskatti á álagningu ÁTVR, og virðisaukaskatt og tekjuskatt á veltu og tekjur áfengisframleiðenda, veitingastaða og annarra vínveitingastaða á Íslandi. Að auki greiddi ÁTVR ríkissjóði um 500 milljónir í arðgreiðslu árið 2021. Varlegt er að ætla að tekjurnar af áfengi hafi verið um 28-30 milljarðar króna.

***

Það er rétt hjá Láru að endursöluaðilar áfengis muni ekki gefa hagnað sinn. En það er nú svo að ríkið tekur í dag 21% af hagnaði fyrirtækja í tekjuskatt og síðan 22% í fjármagnstekjuskatt ef eigandinn greiðir hann út sem arð. Samtals renna því 38,38% af hagnaðinum í ríkissjóð.

Rekstur ÁTVR er einnig sérstakt rannsóknarefni. Sem dæmi má benda á að stjórnendur ÁTVR hafa hækkað sína árlegu hlutdeild um 240 milljónir síðustu tvö árin og taka til sín hvorki meira né minna en 550 milljónir í stjórnunarkostnað en árlega kostar rekstur ÁTVR um 5,5 milljarða. Þetta er fjárhæð sem myndi sparast að mestu ef einkaaðilar, sem þegar eru í verslunarrekstri, tækju alfarið við áfengissölu.

Arðgreiðsla ÁTVR skiptir litlu í þessu reikningsdæmi. Umfjöllun um hana gefur mjög skakka mynd af raunveruleikanum og kemur framsetning lýðheilsufræðingsins því nokkuð á óvart.

***

2. Áfengisneysla hefur aukist úr 4,3L af hreinum vínanda per íbúa árið 1980 í 7,8L árið 2022, þvert á stefnu WHO. Reiknað hefur verið að einn lítri í þessu samhengi eykur útgjöld ríkisins um 17 milljarða á ári.

Þetta eru auðvitað skelfilegar tölur, ef réttar væru. En staðreyndin er sú að enginn veit hver vínneysla er á hvern íbúa Íslandi.

Ef við byrjum á að skoða þróun áfengisneyslu er oft miðað við 1989 þegar bjórinn var leyfður.

Eins og sjá má á grafinu þá er ljóst að enginn bjór var drukkinn á Íslandi fyrir árið 1989. Engum bjór var verið smyglað inn til landsins og þeir sem keyptu bjór í fríhöfninni í Keflavík hafa greinilega bara sett hann inn í geymslu en aldrei drukkið hann. Því miður minna þessar tölur á hagskýrslugerð í Sovétríkjunum sálugu.

Þá er einmitt komið að mikilvægu atriði. Af einhverjum óútskýrðum og óskiljanlegum ástæðum hefur áfengissala í fríhöfninni, sem líklega er stærsta vínbúð landsins, aldrei verið talin með í útreikningum Hagstofunnar á vínneyslu landsmanna. Af þessum tölum hafa svo lýðheilsufræðingar eins og Lára dregið þá röngu ályktun að Íslendingar drekki minna en aðrar þjóðir.

Samkvæmt tölum frá sænska upplýsingaráðinu um áfengi (CAN) er áætlað að þar sé áfengi úr fríhöfnum um 15% af heildarneyslu. Þar sem áfengisgjöld eru með þeim hæstu hér á landi væri því varlegt að áætla að sama eigi við hér.

Enn annað sem margir virðast ekki átta sig er að 2,25% léttbjór er seldur hér í miklu magni í almennum verslunum. Það áfengismagn sem þannig er selt telur Hagstofan ekki með sem áfengisneyslu og andstæðingar ,,vín í búðir” virðast hafa fellt þetta í flokk með hverjum öðrum kóladrykk.

Árið 1989 komu um 180.000 ferðamenn til landsins en eru nú um 2,3 milljónir en ekki er hægt að útiloka með öllu allar þessar 2,3 milljónir séu bindindismenn. Svo auðvitað ferðast Íslendingar erlendis og alveg hugsanlegt að einhverjir ferðalangar fari út í matvöruverslun á Spáni og kaupi sér léttvín með matnum. Íslenska Hagstofan hefur ekkert tillit tekið til þessa.

Nú er erfitt að meta gæði verka starfsmanna Hagstofunnar almennt enda enginn sem hefur eftirlit með eftirlitinu. Þó má benda á nokkur vandræðaleg axarsköft stofnunarinnar eins og þegar hún oftaldi íbúafjölda landsins um 15.245 íbúa auk allmargra leiðréttinga sem gerðar hafa verið birtum verðbólgutölum og tölum um landsframleiðslu.

***

Eru einokunarverslanir góðar eða vondar?

Láru er tíðrætt um ágæti einokunarverslana og vitnar í rannsóknir. Hinsvegar þegar Óðinn skoðar gagnasett erlendis frá virðist eins og að ekki hafi vel tekist til við að berja gögnin til hlýðni því ef Norðurlöndin eru tekin sérstaklega hefur áfengisneysla aðallega minnkað í Danmörku, þar sem mest er frelsið með áfengi, en aukist í hinum löndunum sem öll státa sig af einokunarverslunum.

Sérlega vandræðalegt hlýtur að vera að sjá að neysla hafi aukist hvað mest á Íslandi þrátt fyrir hið margrómaða ,,stýrða aðgengi” sem Láru og ríkiseinokunarsinnum er svo hugleikið.

Ef önnur lönd í Evrópu eru valin af handahófi kemur hins vegar í ljós að áfengisneysla í þeim löndum hefur stórlega dregist saman þrátt fyrir „óheft markaðslögmál” sem ennfremur ætti að kalla á frekari skýringar lýðheilsufræðinga.

Samkvæmt afar ófullkominni könnun Óðins með símtölum í nokkra áfengisinnflytjendur og samkvæmt sölutölum ÁTVR virðist þó eins og að áfengissala hér á landi hafi í besta falli staðið í stað á síðasta ári eða jafnvel minnkað sem hlýtur að kalla á skýringar frá Láru og félögum þar sem markaðssetning og aðgengi hefur aldrei verið meira. Því miður hefur Hagstofan ekki einn birt sínar tölur sem líklega skrifast á styttingu vinnuvikunnar hjá stofnuninni og hið langa jólaleyfi.

Tekjur ríkissjóðs af áfengissölu árið 2023 voru ekki undir 27 milljörðum og allt að 30 milljarðar þegar allt er tiltekið. Því vegur arðurinn frá ÁTVR aðeins um 1,6-1,8% af tekjum ríkissjóðs af áfengi.

***

Velferðarstofnun hilluplásshafa og tóbaksheildsala

Hinsvegar hefur ítrekað verið á það bent að ÁTVR er ekki bara velferðarstofnun fyrir hilluplásshafana heldur einnig fyrir tóbaksheildsala, sem oft eru þeir sömu. Engin hefur nokkru sinni getað útskýrt af hverju hið opinbera stundar heildsölurekstur fyrir tóbaksheildsala sem kemur smásölu áfengis ekkert við.

Með einföldum útreikningum má áætla að hagnaðurinn af þeim ósóma sé vart undir 800-1.000 milljónum sem notað er til að niðurgreiða taprekstur á áfengisverslunum en ætti auðvitað með réttu að renna í ríkissjóð.

Ótal fleiri rangfærslur eru í grein Láru (og annara lýðheilsufræðinga) eins og fullyrðingin um að ,,í áfengisforvörnum gildir að allar mikilvægustu forvarnirnar eru í höndum stjórnvalda”.

Óðinn hefur ekki gert margar lýðheilsurannsóknir en veit þó sem er að stórbætt aðstaða til íþróttaiðkunar hefur haft sitt að segja en auðvitað hentar ekki að minnast á hlutverk tölvuleikja en eins og allir sem eiga unglinga vita þá er athyglisþörfin í hverjum tölvuleik slík að áfengi kemst bara alls ekki að, líklega í öfugu hlutfalli við athyglisþörf í tímum í lýðheilsufræðum.

Lára minnist á að ,,margfalt fleiri látast af völdum áfengis en slysa í umferðinni”. Óðinn getur reyndar líka bent á að mun fleiri deyi ótímabærum dauðdaga vegna ofneyslu á mat heldur en áfengi og spyr því hvort ekki mætti beita einhverjum aðgangsstýringum á því sviði líka. Til dæmis með þröngum aðgangshliðum inn á skyndibitastaði?

Þrjár leiðir Láru

Lára bendir á þrjár leiðir til að draga úr skaðsemi áfengis:

  • Takmarka aðgengi.
  • Verðstýring.
  • Bann við markaðssetningu.

Það furðulega er að samkvæmt lauslegri skoðun Óðins meðal annars með hjálp Google, hefur hvorki Lára eða nokkur annar, sem hæst gala á torgum gegn einkarekstri á þessu sviði, nokkru sinni gert athugasemd við að Ísland á einfaldlega þjóðarmet í fjölda áfengisverslana miðað við höfðatölu.

Sömuleiðis rekur Óðinn ekki minni til athugasemda eftir að Leifsstöð var breytt í einn allsherjar áfengisranghala þar sem áfengi, snyrtivörum, sælgæti og leikföngum er fléttað saman allt umvafið áfengisauglýsingum. Nýjasta viðbótin er svo sjálfsafgreiðslukassar í komuversluninni þar sem ungir sem aldnir geta afgreitt sig sjálfir.

En líklega eru axarsköft ÁTVR í skilríkjaeftirliti eitt það vandræðalegasta í þessu öllu saman. Arnar Sigurðsson benti á í aðsendri grein hér í blaðinu fyrir skömmu að markmið ÁTVR er 90% árangur á sama tíma og netverslanir notast við rafræn skilríki sem engin unglingur kemst í gegnum.

***

Hvar er gagnrýnin hugsun?

Þegar einstaklingur ryðst fram á ritvöllinn undir merkjunum læknir og lýðheilsufræðingur þá leggur fólk við hlustir. Þetta eru jú þeir sem eiga að vita best um hag okkar og heilsu.

En grein Láru er veruleg vonbrigði. Þar er hverja rangfærsluna að finna á fætur annarri. Það sem þó er alvarlegast er skorturinn á gagnrýnni hugsun, sem er einmitt það mikilvægasta sem nemendur læra í skóla, ekki síst háskóla.

Það sjá til dæmis þeir sem skoða gögn Hagstofunnar um áfengisneyslu á hvern Íslending að þær eru afleiddur grunnur til að draga ályktanir. Kom Lára virkilega ekki auga á þetta?

Er læknirinn og lýðheilsufræðingurinn kannski í öðrum erindum en að bæta heilsu og hag fólks? Er hún kannski bara sósíalisti sem trúir því að ríkisrekstur sé betri en einkarekstur og finnur öll rök fyrir því, hvort sem þau eru rétt eða röng?