Samfylkingin er með plan. Það sést á sjónvarpsauglýsingu flokksins sem sýnir hóp af opinberum starfsmönnum sem eru í framboði fyrir flokkinn að dúlla sér inn á smíðaverkstæði. En einn angi plans Samfylkingarinnar er einmitt að hækka skatta á smiði og aðra iðnaðarmenn sem eru í eigin rekstri.

Þetta er margþætt plan. Rétt eins og græna planið hans Dags B. Eggertssonar í borginni sem meðal annars á að tryggja öllum börnum á leiksskólaaldri pláss. Það hefur auðvitað ekki gerst en það skiptir kannski litlu fyrir fólk sem hefur plan. Planið kallast líka á við húsnæðissáttmálann sem Samfylkingin boðaði í síðustu borgarstjórakosningum og mælir byggingu íbúða sem hafa ekki verið byggðar í borginni.

***

Svo eru einstaka frambjóðendur Samfylkingarinnar með sín eigin plön. Þannig lýsti Víðir Reynisson oddviti flokksins í Suðurkjördæmi því yfir í viðtali við Morgunblaðið að hann ætli að koma opinberum starfsmönnum fyrir við alla helstu ferðamannastaði landsins og láta þá rukka gesti og gangandi um tíu þúsund kall á mann. Þetta kallar Víðir auðlindagjald á ferðamenn og ætlar að afla ríkinu 15 milljarða á ári.

Víðir er ekki einhamur. Honum dugar ekki að hækka skatt á iðnaðarmenn og hrista krónur úr vösum ferðamanna. Hann ætlar líka að skattleggja „þá sem hafa meira á milli handanna“ eins og hann orðar það í viðtalinu við Mogga. Viðir veit greinilega ekki að það eru hinir tekjuhæstu sem greiða lungað af því skattfé sem rennur í ríkissjóð. Þannig greiða tvær tekjuhæstu tíundirnar helming alls tekjuskatts.  Rúm­lega helm­ing­ur af nett­ó­tekj­um hins op­in­bera kem­ur frá efstu tveim tekju­tí­und­un­um og 16% koma frá neðstu fimm tekju­tí­und­un­um. Milli­tekju­fólk greiðir þannig um þriðjung nett­ó­tekna hins op­in­bera.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað virðist það hreinlega vera markmið Samfylkingarinnar að hækka skatta á vinnandi fólki.

***

En það eru ekki bara þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa plan. Guðbrandur Einarsson oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi er þannig með plan um að mynda stjórn með flokki sem ekki er útlit fyrir að komist á þing.

Enda er hið stóra plan alls þessa fólks að mynda Reykjavíkurstjórn í landsmálunum. Stjórn sem hækkar álögur á vinnandi fólk, safnar ríkisskuldum og leysir húsnæðisvandann með því að byggja ekki húsnæði.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. nóvember 2024.