Eins og leigumarkaðurinn hafi ekki þegar haldið vöku fyrir hröfnunum þá var frétt Viðskiptablaðsins um verulegar hækkanir Félagsbústaða á leiguverði ekki til að bæta það.

Reyndar vakti fréttin furðu litla athygli en þar kemur fram að Félagsbústaðir ætli að hækka leiguverð umfram verðlag á næsta ári, enda hefur félagið varað við því að veltufé frá rekstri standi að óbreyttu ekki undir afborgunum langtímalána.

Í huga hrafnanna eru þetta stórfréttir, enda hafa Félagsbústaðir verið helsta gullgæs Dags B. Eggertssonar og félaga hans í borgarstjórn. Síðustu ár hafa umdeildar matsbreytingar fjárfestingareigna hjá borgarfyrirtækinu fegrað bækur Reykjavíkurborgar en svo virðist vera að tilvonandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, geti ekki stutt sig við  sömu hækju og forveri sinn í starfi.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.