Að mörgu leyti er skiljanlegt að menn „nenni ekki“ að ræða Covid í dag. Líf raskaðist svo verulega að sjálf hugsunin um tækifærin og verðmætin sem fóru forgörðum væri eingöngu hugarangur. Að hugsa til þess að hafa ekki mátt vera við hlið deyjandi ættingja eða að hafa þurft að sæta ítrekað aðskilnaði frá fjölskyldu sinni um tveggja ára skeið hlýtur að vera ömurlegt. Fólki var skipað að hegða sér með þeim hætti að upprifjun gefur engin grið. Ekkert liggur fyrir um að almenn grímunotkun hafi haft þau áhrif sem henni var ætlað.  Margnotaðar grímur sem héngu niður úr baksýnisspeglum bifreiða. Það er skiljanlegt að „nenna ekki“ að ræða þetta, ekki síst ef því er velt upp um leið hverju þetta allt hafi nú skilað.

Það er jafnvel æskilegt að menn dvelji ekki of lengi við liðna tíma. Það er verk að vinna í dag. Ég hef þannig ekki verið sérstakur talsmaður rannsóknarskýrslna sem hafa aðallega kostað mikið og skilað þeirri fyrirsjáanlegu niðurstöðu að eitthvað hafi misfarist einhvern tímann hjá einhverjum. Hins vegar…

Hins vegar leiddi veirufaraldurinn til fordæmalausra tíma eins og það var orðað. Nýmælin voru hins vegar ekki veiran sjálf. Hún var vissulega ný en útgáfa af gömlum frænkum. Það sem gerði Covid-árin fordæmalaus voru viðbrögð stjórnvalda sem fengin voru frá Kína, hingað komin með nokkrum millilendingum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Fyrir tveimur vikum hóf breska blaðið The Daily Telegraph að birta Whatsapp samskipti Matt Hancocks frá þeim tíma er hann var heilbrigðisráðherra í Covid. Auðvitað vantar samhengi í sumt sem þarna er sagt og síst vil ég oftúlka broskalla og stórkarlaleg ummæli í einkaskilaboðum manna á milla. Tiltekna hluti má þó lesa úr þessum samskiptum. Meðal annars að stjórnvöld viðhéldu ströngum reglum mun lengur en sérfræðingar ráðlögðu á þessum óformlega vettvangi. Ástæðan var m.a. sú að með því að bakka væri gefinn höggstaður á aðgerðunum frá upphafi. Menn voru hræddir við að horfast í augu við að upphaflegu aðgerðirnar voru harðari en tilefni gaf til.

Samskipti heilbrigðisráðherrans staðfesta einnig að skoðanakannanir stýrðu að miklu leyti farvegi aðgerðanna. Þegar stjórnvöld sögðust „hlusta á vísindin“ þá var í raun verið að vísa til kannana sem veittu vísbendingu um að almenningur væri sáttur við lokanir og efnahagsaðgerðir.

Á sama tíma lágu sömu menn ekki á skoðunum sínum á fyrirkomulaginu í Svíþjóð og sóttvarnalækni Svía, Anders Tegnell. Ég tók Facebook viðtal við Anders haustið 2020. Það var enginn vafi í hans huga að dauðsföll fylgdu óhjákvæmilega veirufaraldri sem þessum. Stefna um núll-Covid gæti aldrei gengið upp í lýðræðisríkjum. Anders lagði þó áherslu á að mat á sóttvarnaviðbrögð gæti aldrei farið fram fyrr en að nokkrum árum liðnum. Lykilþáttur í þeim efnum væri umframdauði á tímabili faraldursins, ekki tölur um dauða vegna Covid.

Nú virðast vera að skýrast hvernig mælikvarðinn „umframdauði“ hefur þróast í samanburði við árin á undan Covid. Hver heilbrigðistölfræðin á eftir annarri bendir til að Svíþjóð hafi farnast betur en flestum öðrum ríkjum að þessu leyti.

Fyrr í þessari viku ræddi Svenska Dagbladet við Preben Aavitsland sem tók við sem sóttvarnalæknir Noregs haustið 2022. Hann segist hafa hugsað mikið hvers vegna Svíar urðu fyrir jafn harðri gagnrýni frá sóttvarnayfirvöldum í öðrum löndum og raun bar vitni (íslensk sóttvarnayfirvöld létu þar ekki sitt eftir liggja). „Ég held það sé vegna þess að allir voru óöruggir um hver væru rétt viðbrögð við faraldrinum. Engu að síður kusu nær allir að fara í miklar og langar lokanir snemma í faraldrinum. Þessi leið var mörkuð af Ítölum sem tóku hana upp eftir kommúnískum harðstjórum í Kína. Menn vildu ekki hafa þennan samanburð við Svíþjóð. Svíar gerðu það erfiðara fyrir aðra að halda því fram að aðeins væri ein leið möguleg. Fyrir þessa kollega hefði verið þægilegra ef Svíar hefðu gert eins og allir aðrir. Menn reyndu að fela eigið óöryggi með því að skamma Svía.“