Eins og fram kom í fréttum í vikunni seldi norski fjárfestingasjóðurinn FSN Capital hlut í Hampiðjunni til íslenskra fjárfesta fyrir tæplega fjóra milljarða króna,
Bréfin fékk sjóðurinn þegar Hampiðjan tók yfir Mørenot fyrr á árinu. Viðskiptin fóru fram á 125 krónur á hluta eða um 9% lægra gengi en markaðsgengi. Hrafnarnir telja að Norðmennirnir hafi þarna hlaupið á sig. Þeir hefðu átt að leita ráða hjá Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata eða Guðmundi Björgvini Helgasyni ríkisendurskoðanda en sem kunnugt er þá kunna þeir að verðleggja stór hlutabréfaviðskipti á skráðum markaði upp á hár.
En talandi um það allt saman: Gengi hlutabréfa Íslandsbanka stefnir nú á 100 og er því umtalsvert lægra en gengið var í síðasta útboði og enn lægra en verðmatsgengi Ríkisendurskoðunar. Hrafnarnir gera fastlega ráð fyrir að ríkisendurskoðandi leggi hart að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð fjármálaráðherra að kaupa aftur bréfin sem seld voru í síðasta útboði.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistil birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. Október 2023.