Það hlýtur að koma til álita að tilnefna stjórnarandstöðuliða á Alþingi til Grímuverðlaunanna fyrir stórkostlega frammistöðu í leikþættinum sem settur var á svið kringum útboðið á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Rauði þráðurinn í sýningunni er sá að stjórnarandstaðan elur á vantrausti almennings í garð bankanna, sem hefur verið grunnt á árin eftir hrun, í pólitískum atlögum sínum að ríkisstjórninni. Og lái þeim hver sem vill; þau eru eftir allt saman í pólitík og ekki við öðru að búast en að sóknarfærin séu nýtt.

* * *

Það sem er hins vegar bagalegt við umræðuna er að augu almennings beinast að pólitískum reyksprengjum stjórnarandstöðunnar en ekki þeim þáttum útboðsins sem eru í reynd gagnrýniverðir. Stjórnarandstaðan spilar inn á gamalkunna frasa sem almenningur skilur og tengir við; gjafagjörningur til ættingja, spilling, fjárglæframenn, lögbrot og áfram mætti halda.

Þetta er það sem hreyfir við almenningsálitinu, við tilfinningum fólks og réttlætiskennd þess. Karp um hæsta verð, dreifingu eignarhalds og tæknileg útfærsluatriði nær ekki eyrum fólks og þess vegna er erfitt fyrir ríkisstjórnina og aðra aðila útboðsins að standast gagnrýninni snúning, jafnvel þrátt fyrir að yfirleitt standi þar ekki steinn yfir steini og auðvelt að hrekja rangfærslur. Svo auðvelt raunar að það blasir við að stjórnarandstaðan veit betur.

* * *

Stóru mistök ríkisstjórnarinnar voru að gefa stjórnarandstöðunni færi á að leika sinn leik. Þau hefðu sannarlega getað byrgt brunninn betur fyrir útboð og hugsanlega hefði verið skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina og hennar pólitísku hagsmuni að fara aðra leið í útboðinu, þrátt fyrir að það hefði skilað lægra verði.

Friðurinn væri að líkindum meiri hefðu þau fórnað fjárhagslegum hagsmunum almennings fyrir pólitíska hagsmuni. Óskandi væri að rannsóknir Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins toguðu umræðuna nær þeim ágöllum sem eru þess virði að ræða. Týr reiknar með að spjótin muni þar helst snúa að söluaðilum í útboðinu og tæknilegum þáttum sem almenningur hefur takmarkaðan áhuga á.

Sama hve niðurstöður kynnu að verða ríkisstjórninni hagfelldar, breytir það því ekki að skaðinn er skeður. Almenningur hefur fellt sinn dóm og það verður enginn hægðarleikur að snúa honum við. Ríkisstjórninni til happs er enn langt í kosningar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .