Því var hvíslað að hröfnunum að Píratar hefðu fengið Þórhall Gunnarsson til þess að vera sér innan handar um ímyndarmál og almannatengsl.
Því var hvíslað að hröfnunum að Píratar hefðu fengið Þórhall Gunnarsson til þess að vera sér innan handar um ímyndarmál og almannatengsl.
Þórhallur er fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölmiðlahluta Sýnar en starfar hjá Góðum samskiptum, almannatengslafyrirtæki Andrésar Jónssonar. Þeir Andrés og Þórhallur hófu fyrir skömmu að halda úti hlaðvarpinu Bakherbergið þar sem þeir fjalla um fjölmiðla og stjórnmál.
Orðræða Þórhalls um Pírata í þeim þáttum hefur einmitt vakið athygli hrafnanna. Honum er tíðrætt um hversu afburðagreindir þingmenn Pírata séu og það sé í raun og veru þeirra helsta vandamál. Í einum þætti sagði hann þá hreinlega skilja gangverk heimsins of vel og væntanlega lítur hann þá á það sem verkefni sitt að aðstoða dauðlegt almúgafólk að gera sér grein fyrir snilld Björns Levís og Þórhildar Sunnu og hinna í þingflokknum.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 25. september 2024.