Staðan er grafalvarleg,“ sagði Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku eftir að fyrirtækið sendi frá sér orkuspá fyrir næstu áratugi. Það er umhugsunarefni að nauðsyn orkuöflunar fyrir vöxt og viðgang samfélagsins skuli vefjast jafn mikið fyrir Íslendingum – sérstaklega þegar haft er í huga þau gríðarmiklu tækifæri sem hér eru fyrir öflun grænnar orku.
Staðan er grafalvarleg,“ sagði Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku eftir að fyrirtækið sendi frá sér orkuspá fyrir næstu áratugi. Það er umhugsunarefni að nauðsyn orkuöflunar fyrir vöxt og viðgang samfélagsins skuli vefjast jafn mikið fyrir Íslendingum – sérstaklega þegar haft er í huga þau gríðarmiklu tækifæri sem hér eru fyrir öflun grænnar orku.
„Við erum að súpa seyðið af því að framkvæmdir í raforkukerfinu, hvort heldur sem er í flutningskerfinu eða í virkjunum, hafa ekki fylgt þróun í eftirspurn eftir,“ segir Guðmundur Ingi.
Meginástæður þessa eru fyrst og fremst tafir við leyfisveitingu og svo nú kærur vegna leyfisveitinga. Í síðustu viku var fyrirtaka í máli Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og Hraunvina gegn Landsneti og sveitarfélaginu Vogum vegna framkvæmdarleyfis Suðurnesjalínu 2. Það er hreinlega skammarlegt að andlitslaus félagasamtök séu að leggjast gegn þessari nauðsynlegu framkvæmd sem loksins er hafin eftir áratuga drátt og það á tímum sem orkuöryggi á Reykjanesskaga er í mikilli óvissu vegna eldsumbrota.
Hverju eru Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Hraunvinir svo að mótmæla? Orkuöryggi íbúa Suðurnesja? Við því er ekki auðvelt að fá svör. Litlar upplýsingar er að finna um sunnlensku umhverfissamtökin en samkvæmt bloggsíðu sem þau halda úti hafa þau ekki haldið ársfund síðan 2020 og enga ársreikninga er að finna um rekstur félagsins.
Svipaða sögu er að segja af hinum svokölluðu Hraunvinum sem hafa kært framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínunnar. Samtökin vöktu á sér töluverða athygli þegar þau reyndu að koma í veg fyrir lagningu nýs vegar út á Álftanes meðal annars með skríls-látum. Það hvarflar ekki að nokkrum manni í dag að lagning þess vegar hafi verið umhverfisslys sem hefði átt að koma í veg fyrir. Síðustu fréttir af starfi Hraunvina eru frá því í nóvember í fyrra en þá átti aðalfundur þessa félagsskapar að fara fram.
Það eru mestu firn að þeir sem leiða þessi samtök skuli komast upp með að þvælast fyrir svo nauðsynlegum framkvæmdum án þess að svara fyrir það. Hafa Náttúruverndarsamtök Suðurlands eða Hraunvinir átt í samtali við íbúa Suðurnesja um andstöðu samtakanna tveggja gegn lagningu línunnar?
Náttúrugrið eru samtök sem virðast vera formlegri en þau sem upp eru talin hér fyrir ofan. Á heimasíðu þeirra kemur fram að félagsmenn eru um hundrað. Þau hafa kært framkvæmdaleyfið vegna Búrfellslundar. Það gera þau á grundvelli þess að vindorkuverið skerði „ gildi ferðalaga almennings um hálendið og hafi áhrif á upplifun ferðamanna langt út fyrir virkjana-svæðið sjálft, eða yfir alla Sprengisandsleið, Fjallabak og önnur hálendissvæði“.
Með öðrum orðum á að koma í veg fyrir nauðsynlega öflun grænnar orku vegna þess að „gildi ferðalaga almennings“ verði síðra vegna vitundar um einhverjar vindmyllur sem standa í órafjarlægð. Þetta er auðvitað vitleysisgangur og enn eitt dæmið um hvers konar ógöngur lögfesting Árósasamningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð hefur leitt umhverfisverndarmál hér á landi og annars staðar vegna afbökunar á réttindum sem honum fylgja. Er skemmst frá því að minnast í því samhengi að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að svissnesk stjórnvöld höfðu brotið á hópi þarlendra gamalmenna vegna aðgerðarleysis í loftlagsmálum. Það mál var meðal annars höfðað á grundvelli Árósasamningsins.
Leikreglunum verður ekki breytt eftir á. En tímabært er að endurskoða þær og að sama skapi krefjast svara um hvað þeim gengur til sem sífellt keppast við að leggja stein í götu eðlilegrar framþróunar samfélagsins.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst i blaðinu sem kom út 25. september 2024.