Opnun nikótínpúðaverslunar Svens í Grímsbæ hefur vakið óverðskuldaða athygli enda lítið fréttnæmt við að ein slík verslun til viðbótar opni því fyrir eru tíu slíkar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Áhyggjur nokkurra íbúa í Bústaðarhverfinu hefur þó reynst hin besta auglýsing fyrir verslunina.
Opnun nikótínpúðaverslunar Svens í Grímsbæ hefur vakið óverðskuldaða athygli enda lítið fréttnæmt við að ein slík verslun til viðbótar opni því fyrir eru tíu slíkar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Áhyggjur nokkurra íbúa í Bústaðarhverfinu hefur þó reynst hin besta auglýsing fyrir verslunina.
Umfjöllunin á rætur sínar að rekja til greinar Eyrúnar Magnúsdóttur, fjölmiðlakonu og íbúa í Bústaðarhverfinu, sem telur að við opnun Svens breytist Bústaðavegur í Nikótínstræti þar sem þegar er rekin rafrettuverslun við götuna. Hún kallaði eftir því að Reitir, leigusali Svens í Grímsbæ, og lífeyrissjóðir sýni samfélagslega ábyrgð með því að koma í veg fyrir að nikótínpúðaverslun opni á svæði þar sem stutt sé í skóla og íþróttasvæði.
Linda Ásgeirsdóttir, annar meðlimur Skoppu og Skrítlu tvíeykisins og félagi í foreldrafélagi Réttarholtsskóla, steig svo fram í viðtali nokkrum dögum síðar með svipaðan málflutning. Í frétt Vísis um málið kom jafnframt fram að þrjú foreldrafélög hafi sent bréf á Reiti með ákalli um að félagið hætti við að leigja Svens húsnæði undir reksturinn í Grímsbæ.
***
Í næsta nágrenni við Grímsbæ eru þrír grunnskólar: Réttarholtsskóli, Breiðagerðisskóli og Fossvogsskóli. Sá fyrstnefndi er staðsettur tæplega kílómetra frá Grímsbæ og hinir tveir rúmlega kílómetra. Það verður því seint sagt að Grímsbær sé í bakgarðinum. Það væri þó forvitnilegt að spyrja þessa ráðríku íbúa, sem þykjast geta handvalið hvaða frjálsi fyrirtækjarekstur sé í nærumhverfi þess, hvað sé ásættanleg fjarlægð.
Þess má geta að Kringlan er aðeins í um 2 kílómetra fjarlægð frá öllum fyrrnefndu grunnskólunum. Þar má finna flest allt sem hugurinn girnist, nikótínpúða, áfengi o.s.frv. Þá hefur verið hægt að kaupa nikótínpúða í Grímsbæ í mörg ár, í verslun Krambúðarinnar. Loks er, eins og einn eigenda Svens benti á í Morgunblaðinu, Svens er með strangar reglur um að selja ekki einstaklingum undir 18 ára nikótínpúða.
***
Týr tekur undir með Eyrúnu og Lindu um mikilvægi þess að halda börnum frá nikótínneyslu, en tilgangurinn má ekki helga meðalið. Það er þó alls ekki ákjósanleg leið að rífa síðu úr bók kínverska kommúnistaflokksins og leggja alls kyns boð og bönn á borgara landsins. Mun fremur er vænlegra til árangurs að halda uppi forvararstarfi og fræða ungmenni um skaðsemi nikótínneyslu.
Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.