Hrafnarnir heyra að á fjármálamarkaði er fátt talað meira um en hinn nýstofnaða neyðarsjóð Ragnars Þórs Ingólfssonar, þingmanns Flokks fólksins og fjölskyldu hans.

Sem kunnugt er stofnaði Ragnar neyðarsjóðinn eftir að hann fékk í hendurnar tæpar tíu milljónir frá félögum sínum í VR vegna starfsloka sinna sem formaður verkalýðsfélagsins. Hrafnarnir heyra að sjóðsstjórar í bönkunum og verðbréfafyrirtækjunum bíða spenntir hvaða áherslur Ragnar kemur til með að hafa þegar kemur að stýringu sjóðsins. Ekki síst vegna þess að það er fátt sem Ragnar hatar meira en jákvæða raunvexti en hefur ítrekað sagt slíkt „vera dekur við fjármagnseigendur“.

Þingmanninum er því vandi á höndum vilji hann ekki að höfuðstóll neyðarsjóðsins rýrni. Ein lausn gæti þó verið að ráða Gylfa Magnússon viðskiptafræðing sem sjóðsstjóra. Gylfi benti á dögunum að það væri ákaflega ábatasamt fyrir ríkið að skulda pening og eiga hlutabréf í bönkum á sama tíma. Því gæti Gylfi gírað upp neyðarsjóð Ragnars hressilega og tekið þátt í fyrirhuguðu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Vafalaust mun neyðarsjóður Ragnars skipa sér þar í flokk fagfjárfesta.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. mars 2025.