Núna þegar kosningar eru afstaðnar þá er gott að horfa fram veginn og reyna ímynda sér hvernig næstu ár munu þróast. Það er flestum ljóst að útgjöld ríkis og sveitarfélaga hafa aukist gríðarlega á yfirstöðnu kjörtímabili, einnig standa sveitarfélög víða höllum fæti fjárhagslega.

Markmið þessar greinar er að opna umræðuna um samvinnuverkefni í innviðafjárfestingum sem eru venjulega kölluð PPP verkefni (e. Public Private Partnership).

Tilgangur slíkra uppbyggingaverkefna er að búa til eign sem veitir þjónustu, þá oftast fyrir opinbera aðila í skiptum fyrir greiðslu sem er í réttu hlutfalli við þjónustuna sem veitt er. Lykilatriði er að ríkið ákveði í upphafi hvaða þjónustu eigi að veita og leyfi fagaðilanum að ákveða hvernig best sé að framkvæma verkefnið. Sé rétt haldið á slíkum verkefnum skila þau miklum ábata til samfélagsins. Á Íslandi er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum og ríkið getur ekki eitt og sér fjármagnað þessa þörf, alveg sama hvort um sé að ræða heilbrigðiskerfið, vegakerfið eða aðra innviði.

Kostir PPP verkefna eru meðal annars meiri sveigjanleiki og hraðari ákvörðunartaka sem leiðir af sér styttri framkvæmdatíma. Einnig má nefna annarskonar sparnað, ríkið getur notað eignir sínar, fjármuni og annað í átt að samfélagslegum innviðum og ekki má gleyma auknum rekstrarhagnaði fyrir ríkið. Þrátt fyrir framangreinda kosti má nefna að fjármögnunarkostnaður fagaðila er oft hærri en hjá ríkinu, að verkefnið uppfylli ekki fyrir fram ákveðnar kröfur og að í raun sé ekki flutningur á áhættu frá ríki til fagaðila.

Gagnrýnendur PPP samstarfs halda því oft fram að ferlið sé ekkert annað nema bakdyraleið að einkavæðingu. Það er hins vegar grundvalla munur á þessum tveimur aðferðum. Einkavæðing snýst um að taka ríkisrekið fyrirtæki og selja það einkaaðilum. PPP verkefni eru ólíkt einkavæðingu önnur nálgun í veitingu þjónustu hins opinbera með samningi við einkaaðila til skamms tíma. Að loknu samningssambandi einkaaðilans færist eignarhaldið og reksturinn yfir til ríkisins, líkt og í tilviki Hvalfjarðaganga. Lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir nr. 80/2020 er fyrsta skrefið í að greiða fyrir fleiri PPP verkefnum.

Hins vegar horfir löggjafinn mjög þröngt á kosti samvinnuverkefna. Í lögunum er eingöngu horft til vegakerfisins, hægt er að beita PPP hugmyndafræðinni að fleiri innviðum heldur en samgöngum. Þörf er á að taka skrefið til fulls og útbúa umgjörð sem nær til fleiri innviða en samgangna.

Þegar hugsað er um dreifikerfi rafmagns til framtíðar þá væri skynsamlegt að gera ráð fyrir því að einhver hluti endurnýjunar á kerfinu muni falla undir PPP verkefni. Flutningskerfi rafmagns á Íslandi er komið til ára sinna og vitað er að gríðarlega mikið magn af orku sem tapast í kerfinu. Samkvæmt skýrslu frá 2018 sem verkfræðistofan EFLA gerði þá nam meðal flutningstap hjá Landsneti 2% á tímabilinu 2010-2014. Í framtíðar orkustefnu stjórnvalda ætti því að horfa sérstaklega til PPP verkefna til að hraða uppbyggingu raforkukerfisins. Slíkt samstarf gæti verið farsælt þegar kemur að endurnýjun á dreifikerfinu og myndi um leið draga úr sóun, tryggja örugga dreifingu raforku og skila áfram hagstæðu verði til neytenda. Ef ekkert er gert þá er erfitt að sjá hvernig orkuskipti geta farið fram.

Sveitarfélög á Íslandi geta nýtt sér PPP verkefni í ýmiskonar verkefnum, ætla má að mörg þeirra hafi áhuga á því að minnka skuldastöðuna sína á sama tíma og þau væru að fjárfesta í nýjum fasteignum og innviðum. Sveitarfélög eiga mörg hver mikið af fasteignum og eru einnig að leigja fasteignir til ýmissa nota. Tækifærið liggur í því að sveitarfélög geta selt frá sér fasteignir og fækkað þeim fasteignum sem þau eru með á leigu. Á sama tíma unnið að PPP verkefnum sem snúa að nýfjárfestingum sem nýta má til samskonar starfsemi og var notuð í þeim eignum sem verða seldar eða hætt verður að leigja. Þannig opnast möguleikinn fyrir sveitarfélög til að minnka skuldastöðu sína með söluhagnaði fasteigna og minka rekstrarkostnað af hinum leigðu fasteignum. Með þessari aðferð þá geta sveitarfélög lagt meiri áherslu á sína grunn þjónustu, sem í þessu tilfelli væri skipulagsmál og úthlutun lóða.

Í umræðunni á Íslandi hefur lítið verið talað um hvernig PPP verkefni geti hjálpað stjórnvöldum og sveitarfélögum með nauðsynlega uppbyggingu innviða. Umræðan er loksins farin af stað en hún er eingöngu um vegakerfið og ákveðin verkefni. Næsta skref er að skoða samstarf með aðra innviði, eins og þessa sem nefndir eru hér að ofan. Það er því til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag að vinna framtíðarstefnu um innviðauppbyggingu og hvort PPP verkefni eigi við um hagræna eða samfélagslega innviði, eða bæði.