Íslenskir stjórnmálamenn lýsa gjarnan miklum áhyggjum yfir upplýsingaóreiðu og falsfréttum og telja það jafnvel ógn við lýðræðið. Þeir eru ekki mikið fyrir sjálfskoðun því hvergi er að finna meiri upplýsingaóreiðu og fals og hjá íslenskum stjórnmálamönnum. Dæmin er mörg en sem nýlegt dæmi má nefna vantrauststillögu á fyrrverandi dómsmálaráðherra þar sem tillögumenn héldu því blákalt fram með rangfærslum og útúrsnúningi að ráðherra hefði brotið þingskaparlög. Annað dæmi, sem er örugglega einshvers konar met í upplýsingaóreiðu, falsi og almennum þvættingi stjórnmálamanna, er svokallað Lindarhvolsmál sem hér verður gert að umfjöllunarefni.
Nauðsynlegt er að fara yfir helstu staðreyndir svo hægt sé að greiða úr allri óreiðunni. Sigurður Þórðarson var settur ríkisendurskoðandi í mjög afmarkað verkefni þar sem þáverandi ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, var vanhæfur hvað það varðaði. Verkefnið var að hafa eftirlit með störfum Lindarhvols, sem var stofnað til þess eins að selja eignir sem ríkið hafði fengið sem stöðugleikaframlag fyrir utan Íslandsbanka, og endurskoða reikninga þess. Sigurður var settur ríkisendurskoðandi þar til verkefninu lyki eða þar til skilyrði vanhæfis væru ekki lengur fyrir hendi. Mat á verðmæti þessara eigna lá fyrir þegar samningur um stöðuleikaframlagið var gerður 2016. Í ársbyrjun 2018 voru þessar eignir nánast allar seldar.
Þegar Skúli Eggert Þórðarson var kosinn ríkisendurskoðandi og tók til starfa 1. maí 2018 var vanhæfi ekki lengur fyrir hendi. Þar með var störfum Sigurðar Þórðarsonar lokið og Skúli Eggert tók við verkefninu. Á þeim tíma var engin skýrsla eða greinargerð til frá Sigurði Þórðarsyni um verkefnið. Því óskaði Skúli Eggert eftir því við Sigurð að hann fengi skýrslu eða greinargerð um stöðu verkefnisins. Sigurður skilaði honum greinargerð nokkrum mánuðum síðar sem varð með því vinnuskjal ríkisendurskoðanda í þessu verkefni en um meðferð slíkra skjala gilda lög um ríkisendurskoðanda. Að vísu voru í greinargerðinni aðallega hugleiðingar um atriði sem komu störfum Lindarhvols ekkert við og því ótengdar verkefni Sigurðar en það er annað mál. Greinargerðin var samantekt á ólokinni vinnu og bar því ekki með sér neina niðurstöðu. Engar umsagnir lágu fyrir frá þeim sem málið varðaði hvað þá andmæli, enda var þetta einungis stöðuskýrsla fyrir nýjan ríkisendurskoðanda. Einhverra hluta vegna sendi Sigurður afrit af henni til Alþingis, Umboðsmanns Alþingis og Seðlabankans, en slíkt er óþekkt þegar vinnu er ekki lokið. Skúli Eggert skilaði svo fullunninni skýrslu til Alþingis fyrir rúmum þremur árum og er umfjöllun og meðferð hennar enn ólokið í þinginu.
Sumir stjórnmálamenn hafa engan áhuga á staðreyndum heldur skal nýta sér upplýsingaóreiðu til upphlaupa í pólitískum tilgangi. Þegar þessir stjórnmálamenn komust á snoðir um að vangaveltur Sigurðar Þórðarsonar væru annars eðlis en endanleg niðurstaða ríkisendurskoðanda hófst fyrsti þáttur í nokkurs konar leikriti sem hefur staðið yfir misserum saman. Forseti Alþingis var sakaður um leyndarhyggju og látið að því liggja að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki að greinargerðin kæmi fyrir sjónir almennings til að fela eigin skít. Staðreyndin er á hinn bóginn sú, að þessi greinargerð er vinnuskjal ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi birtir aldrei skjöl í ókláruðu verkefni og telur það vera óheimilt án þess að fyrir liggi umsagnir og eftir atvikum andmæli þeirra sem til umfjöllunar eru. Að Alþingi birti skjöl ríkisendurskoðanda án hans samþykkis er fráleitt og breytir þá engu þótt Sigurður hafi sjálfur sent skjalið til Alþingis. Birting þess hefði verið aðför að sjálfstæði ríkisendurskoðanda og á forseti Alþingis heiður skilinn fyrir að standa í lappirnar í þessu máli. Aftur á móti er það sorglegt að þingmaður, sem telur sig af óskiljanlegum ástæðum siðlegri en aðrir, skuli birta þetta skjal sem trúnaður ríkir um. Ætlar Alþingi að láta það óátalið?
Þessi greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um vinnu, sem var ekki lokið og að mestu um annað en verkefnið laut að, varð skyndilega að sjálfstæðri niðurstöðu og sannleikurinn að auki. Ætli aðra eins upplýsingaóreiðu og þvætting sé að finna annars staðar í heiminum?
Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.