Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á þriðjudag.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á þriðjudag.
Kynningin fór fram undir yfirskriftinni Þetta er allt að koma. Hrafnarnir átta sig ekki á hvers vegna kynning fjárlaga kallist á við vinsæla skáldsögu Hallgríms Helgasonar og hvað megi lesa í það? Þá má spyrja hvað það er sem er nákvæmlega að koma? Ekki er það stöðugleiki og aðhald í ríkisrekstrinum að minnsta kosti.
Fjárlögin gera ráð fyrir 41 milljarðs króna hallarekstri á næsta ári. Vissulega er minni hallarekstur en útlit er fyrir í ár en áætlanir gera ráð fyrir 51 milljarðs halla. En ekki er á vísan að róa. Það kennir sagan okkur. Fjárlögin eiga eftir að fara fyrir þingheim í kosningaham og vafalaust aukast útgjöldin enn frekar við það. Þá er samdráttur í hagkerfinu farinn að hafa áhrif á skattheimtu. Sést það ágætlega á þeirri staðreynd að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var lögð fram fyrir nokkrum mánuðum gerði ráð fyrir 25 milljarða halla á næsta ári.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. september 2024.