Það er fátt sem ergir Tý jafn mikið og popúlismi stjórnarandstöðunnar í útlendingamálum. Það er þingmönnum í stjórnarandstöðu auðvelt að varpa fram digurbarkalegum yfirlýsingum um stefnu stjórnvalda í útlendingamálum, þegar þeir þurfa ekki að bera neina ábyrgð á framkvæmdinni.

***

Katrín Jakobsdóttir ætti að þekkja þetta vel, en það eru ekki mörg ár síðan hún sat sjálf sem þingmaður í stjórnarandstöðu og gagnrýndi stefnu stjórnvalda í útlendingamálum harkalega. Gagnrýni hennar hefur af og til verið dregin upp eftir að hún settist í forsætisráðherrastólinn, til þess að benda á að nú velji hún þá sömu stefnu og hún áður gagnrýndi. Þykir vinstrimönnum hún sýna af sér örgustu hræsni, þegar í reynd er um þroskamerki að ræða. Það vill nefnilega svo til að þegar fólk er komið hinum megin við borðið og þarf að bera raunverulega ábyrgð á orðum sínum, þá áttar það sig fljótt á því að þessi málaflokkur er ekki jafn einfaldur og popúlistarnir í stjórnarandstöðu vilja meina.

***

Eins göfugur og málstaðurinn kann að vera í einstökum málum, þá er raunveruleikinn sá að það þurfa að vera reglur, það þarf að fara eftir þeim, það þarf að gæta jafnræðis og stundum lendir fólk röngu megin við línuna sem fólk vildi gjarnan hjálpa. Ráðherrar ekki tekið geðþóttaákvarðanir í einstaka málum og það fram fyrir hendur tveggja stjórnsýslustiga - það er Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála - sem úrskurða í málum í samræmi við gildandi lög.

***

Það er ævintýralegt að fylgjast með stjórnarandstöðunni kalla trekk í trekk eftir pólitískum afskiptum af einstaka málum, sem víðast hvar væri kallað spilling. Það er kaldhæðnislegt að vinstrimenn virðast ekki hafa nokkurn skilning á hugtakinu, sama hversu oft þeir standa á torgum, bendandi í allar áttir og öskrandi „spilling!“. Þeir skilja heldur ekkert í því hvers vegna kjósendur hafna þeim aftur og aftur.

***

Sem betur fer sér meirihluti landsmanna alla jafna í gegnum pólitískar keilur popúlistanna, þrátt fyrir að stundum dansi almenningur við trommuleik stjórnarandstöðunnar til skamms tíma. Það dugir ekki til lengdar að benda bara á hve allt er „ömurlegt“, það þarf að færa fram lausnir ef menn ætla að eiga erindi. Þar hafa vinstrimenn aldrei verið sterkir á svellinu.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 17. nóvember 2022.