Ég þykist vita að þú, lesandi góður, sért sammála mér um að hver og einn einstaklingur eigi að vera frjáls; að við eigum öll að hafa rétt til þess að gera það sem við viljum, svo framarlega sem við völdum öðru fólki ekki tjóni.

Merkur maður sagði eitt sinn að valdbeiting væri af hinu illa, vegna þess að með henni væri einstaklingurinn ekki lengur hugsandi og fullveðja vera, heldur einungis tól annarra til að ná markmiði þeirra. Eflaust erum við sammála um þetta, ég og þú. Við erum í liði með kærleika og virðingu fyrir fólki og réttindum þess.

En þegar við samþykkjum þessa almennu meginreglu, hið svokallaða friðsemdarlögmál sem hljómar svo vel, verðum við að spyrja sjálf okkur hvort það fyrirkomulag sem við aðhyllumst í stjórnmálum þurfi á einhvers konar valdbeitingu að halda. Hvað gerist ef einhver vill ekki undirgangast þessa skipan mála? Getur sá einstaklingur óáreittur fengið að lifa lífi sínu í friði, eða yrði honum á endanum fleygt í tugthúsið? Ef svarið er nei fellur stjórnmálastefnan okkar á friðsemdarprófinu.

Ég tel að friðsemdarlögmálið sé rétt í sjálfu sér.

„En málið er ekki svona einfalt,“ gæti maður hugsað, alls kyns athafnir sem flokkist sem „frjálsar“ samkvæmt þessari barnalegu skilgreiningu feli í sér einhvers konar nauðung, eða valdbeitingu. Þess vegna þurfi vald; einmitt til að koma í veg fyrir ofbeldi í samfélaginu.

Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég tel að friðsemdarlögmálið sé rétt í sjálfu sér. Að mínu mati felst í því kærleikur, umburðarlyndi og friður, að leyfa öðru fólki að haga lífi sínu eins og það sjálft vill. Í kaupbæti fáum við svo „kerfi“, þar sem undirstaða eigin lífshamingju er að gera það sem maður gerir best eins vel og maður getur, fyrir aðra. Það er ekki ónýtur bónus.